Bæjarstjórar í sveitarfélögunum í Kraganum, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Seltjarnarnesi ásamt forstöðumanni Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna, RannUng, við Háskóla Íslands, undirrituðu í gær samstarfssamning um rannsóknarverkefni í leikskólum sveitarfélagana.
Markmið samstarfsins er að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi. Um er að ræða samning til þriggja ára.
Fyrsta rannsóknin sem aðilar taka höndum saman um að vinna er um tengsl leiks við námssvið aðalnámskrár leikskóla frá 2011. Markmið rannsóknarinnar er að vinna með tengsl leiks og náms í leikskólum. Jafnframt verður skoðað hvernig leikskólakennarar, umhverfið og barnahópurinn styðja við leik barna og nám.
Gengið verður út frá víxlverkun leiks og náms, þar sem leikurinn styður við nám og nám styður við leik. Starfendarannsókn og þróunarvinna verður unnin í fimm leikskólum, einum í hverju sveitarfélagi, árin 2012-2014.
Sveitarfélögin munu velja leikskóla til þátttöku í rannsókninni í samráði við fulltrúa RannUng. Stýrihópur skipaður einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi og tveimur fulltrúum frá RannUng heldur utan um verkefnið og fylgist með framvindu þess.