Endurnýjun samstarfssamninga við íþrótta- og tómstundafélög í Mosfellsbæ.
Mosfellsbær hefur unnið að endurnýjun samstarfssamninga við íþrótta- og tómstundafélög í Mosfellsbæ í samstarfi við félögin á síðustu mánuðum.
Á fundi bæjarráðs þann 7. júní var bæjarstjóra Mosfellsbæjar heimilað að undirrita samninga við þau íþrótta- og tómstundafélög sem hafa lýst yfir vilja til undirritunar þeirra.
Samningarnir byggja að stofni til á fyrri samningum sem gerðir voru árið 2013. Við undirbúning þeirra var m.a. tekið mið af reynslu síðustu ára, áherslum Mosfellsbæjar og óskum félaganna. Félögin munu líkt og áður gera grein fyrir ráðstöfun fjármuna með reglulegum framvinduskýrslum til fræðslu- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundanefndar.
Á síðustu dögum hafa verið undirritaðir samningar við Hestamannafélagið Hörð, Skátafélagið Mosverja, Björgunarsveitina Kyndil, Mótómos, Íþróttafélagið Ösp, Skíðadeild KR og Golfklúbb Mosfellsbæjar.
Íbúafjölgun hefur áhrif
„Það er mjög ánægjulegt að þessari vinnu sé nú að mestu lokið og okkar mat er að samningarnir séu til þess fallnir að efla og styrkja enn frekar starfsemi félaganna og þar með Mosfellsbæjar á sviði íþrótta- og tómstundamála,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Vinnubrögð við samningagerðina eru í sífelldri þróun og nú er til dæmis með skýrari hætti en áður gert ráð fyrir áhrifum íbúafjölgunar á fjölda iðkenda. Samningagerðin byggir annars vegar á samvinnu og trausti og hins vegar góðri vinnu við að leiða fram niðurstöðu sem er farsæl fyrir alla aðila.“