Mosfellsbær hefur unnið að endurnýjun samstarfssamninga við íþrótta- og tómstundafélög í Mosfellsbæ í samstarfi við félögin á síðustu vikum. Markmið samninganna er að tryggja öflugt og fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf í Mosfellsbæ. Samstarfssamningar við félög hafa verið gerðir frá árinu 2014 og eru mikill stuðningur við starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga.
Á fundi bæjarráðs þann 31. mars var bæjarstjóra Mosfellsbæjar heimilað að undirrita samninga við íþrótta- og tómstundafélög. Fjárframlög í samningum taka meðal annars til barna- og unglingastarfs, til almenns reksturs, til sumarstarfa og til afreksstarfsemi og afreksþjálfunar. Félög sem eiga eigið húsnæði fá framlög vegna afnota af eigin mannvirkjum til barna- og ungmennastarfs.
Samningarnir byggja að stofni til á fyrri samningum sem gerðir voru árið 2018. Við undirbúning þeirra var m.a. tekið mið af reynslu síðustu ára, áherslum Mosfellsbæjar og mati á óskum félaganna. Dæmi eru um aukin framlög þar sem Mosfellsbær felur félögum ný verkefni eða tekur þátt í verkefnum með öðrum hætti. Þannig er samið við Aftureldingu um aukið fjármagn í almennan rekstur, til afreksstarfsins og til barna- og unglingastarfs. Þá er samið um aukið fjármagn til fara af stað með tilraunaverkefni um félagshesthús hjá Hestamannafélaginu Herði með það að markmiði að styrkja ungt fólk til að taka sín fyrstu skref í hestamennsku.
Félögunum ber eins og áður gera grein fyrir ráðstöfun fjármuna með framvinduskýrslum til fræðslu- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundanefndar. Þá er það skilyrði fyrir fjárveitingum til íþrótta- og tómstundafélaga er að þau setji sér siðareglur, viðbragðs- og aðgerðaráætlun í tengslum við þær og fræði starfsfólk um kynferðislegt áreiti/ofbeldi og hvers konar annað ofbeldi.
„Það er frábært að þessari vinnu sé lokið og okkar mat er að samningarnir séu til þess fallnir að efla og þróa áfram starfsemi félaganna og þar með Mosfellsbæjar á sviði íþrótta- og tómstundamála. Samningagerðin byggir nú eins og endranær á þéttri samvinnu og samtali milli Mosfellsbæjar og félaganna til að leiða fram niðurstöðu sem er til þess fallin að styrkja íþrótta og tómstundastarf í bænum okkar.“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Samningarnir voru undirritaðir við hátíðlega athöfn í Hlégarði þriðjudaginn 5. apríl og var myndin tekin við það tilefni.