Mosfellsbær og Garðabær fóru í sameiginlegt útboð vegna sorphirðu og voru samningar undirritaðir á þriðjudag við Íslenska gámafélagið og Terra umhverfisþjónustu.
Samningarnir við Íslenska gámafélagið eru annars vegar fyrir sorphirðu á lífrænu og almennu sorpi og hins vegar fyrir hirðingu á pappír og plasti og voru það Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Jón Þórir Frantzson forstjóri Íslenska gámafélagsins sem undirrituðu samninginn. Gildistíminn er í fimm ár með framlengingarákvæði um eitt ár í þrjú skipti.
Þá var undirritaður samningur vegna sorphirðu djúpgáma við Terra umhverfisþjónustu og voru það bæjarstjóri fyrir hönd Mosfellsbæjar og Valgeir S. Baldursson fyrir hönd Terra. Gildistími þess samnings er tvö ár með framlengingarákvæði um eitt ár í senn í þrjú skipti.
„Við erum mjög ánægð með þessa samninga sem eru afar hagstæðir fyrir sveitarfélagið,“ sagði Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri en upphæðir samninganna við Íslenska gámafélagið ehf. námu um 80% af kostnaðaráætlun og samningurinn við Terra tæplega 70%.
Heildarfjárhæðir fyrir samning við Íslenska gámafélagið (5 ár) – Blandaður úrgangur og matarleifar er 362.593.485 kr. með vsk. og pappír og plast er 298.866.867 kr. með vsk. Samningur við Terra (2 ár) – Djúpgámar er 15.044.176 kr með vsk.
Efri mynd: Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Jón Þórir Frantzson forstjóri Íslenska gámafélagsins og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.
Neðri mynd: Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Valgeir Baldursson forstjóri Terra.
Tengt efni
Sorphirða yfir jól og áramót 2024
Snjallar grenndarstöðvar í Mosfellsbæ
Á næstu vikum verða þrjár grenndarstöðvar í Mosfellsbæ gerðar snjallar.
Íbúar öflugir í frágangi eftir áramót
Miklu magni af flugeldarusli var safnað í sérstakan gám á vegum bæjarins núna um áramótin.