Safnanótt var haldin hátíðleg í Bókasafni Mosfellsbæjar föstudaginn 3. febrúar.
Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð, en þetta er í fyrsta sinn síðan 2020 sem hátíðin fór fram. Á dagskrá var tónlist, leikur, lestur og leirlist.
Hafdís Huld Þrastardóttir og Alisdair Wright buðu yngstu gestunum í söngstund. Þau sungu og léku lög af barnaplötum sínum: Vögguvísur, Barnavísur og Sumarkveðja. Gestir tóku vel undir með Hafdísi Huld. Að því loknu kíkti Lilli Klifurmús í heimsókn ásamt undirleikara, en Leikfélag Mosfellssveitar sýnir um þessar mundir Dýrin í Hálsaskógi í Bæjarleikhúsinu. Jóna Valborg Árnadóttir rithöfundur las upp úr bók sinni Penelópa bjargar prinsi, en bókin fjallar um Penelópu sem ákveður að kanna hvort sagan um prinsinn sem beit í epli galdrakerlingar og féll í dá sé sönn. Hún ákveður leggja upp í langferð með hugrekkið að vopni og freista þess að finna prinsinn og bjarga honum.
Melkorka Matthíasdóttir leirlistakona bauð gestum upp á leiðsögn um sýningu sína Og hvað um tað? – tilraunir með öskuglerunga í Listasal Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Vel heppnað Bókmenntahlaðborð
Stafræn bókasafnskort í Mosfellsbæ
Lína Langsokkur mætti óvænt á sögustund
Það vakti mikla lukku í gær þegar Lína Langsokkur, Hr. Níels, Anna og Keli mættu óvænt á sögustund í Bókasafni Mosfellsbæjar.