Vilborg Dagbjartsdóttir og Guðmundur Andri rýna í Kvæðakverið á Gljúfrasteini 27. september kl. 16:00.
Hið ástsæla skáld, rithöfundur og kennari Vilborg Dagbjartsdóttir ýtir Verki mánaðarins úr vör í september, með hugrenningum sínum og upplestri úr Kvæðakveri Halldórs Laxness, sem fyrst kom út árið 1930. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur mun ræða við Vilborgu um kvæðin og hvetja gesti til að taka þátt í spjallinu og velta vöngum í stofunni á Gljúfrasteini 27. september kl. 16:00.
Ljóðin í Kvæðakveri Halldórs Laxness þóttu allnýstárleg á sínum tíma. Þar komu fram djarfar tilraunir til að leysa íslenskt ljóðmál úr viðjum hins hefðbundna forms og tónninn var ögrandi. Í ljóðunum mátti finna háðsádeilu, stælingar og gamanmál, uppreisn gegn fáfengilegu orðaprjáli og uppblásnum hátíðleik. Meðal ljóðanna í Kvæðakveri var Únglíngurinn í skóginum en það er fyrsta súrrealíska kvæðið á íslensku. Alþingismenn voru hins vegar ekki ýkja sáttir við Únglínginn og sviptu Halldór Laxness skáldalaunum fyrir kveðskapinn.
Ljóðagerð var alla tíð aukageta hjá Halldóri Laxness. Hann einbeitti sér að ritun skáldsagna um áratuga skeið en kryddaði þær gjarnan með ljóðum. Heimsljós er þekktasta dæmið, enda er aðalpersónan Ólafur Kárason skáld. Ljóðin eru flest í hefðbundnu formi, bundin í stuðla og höfuðstafi.
Verk mánaðarins er opinn leshringur sem Gljúfrasteinn stendur fyrir. Eitt verk eftir Halldór Laxness er tekið fyrir í hverjum mánuði sem fólk er hvatt til að lesa. Í lok hvers mánaðar er síðan upplagt að heimsækja Gljúfrastein og taka þátt í spjalli, sem fram fer í stofunni, um verkið. Stofuspjallinu stýra ýmsir valinkunnir bókmenntamenn og konur.
Það eru allir velkomnir á stofuspjallið, aðgangseyrir er aðeins 500 krónur og það er síður en svo skylda að hafa nýlokið lestri á viðkomandi verki.
Tengt efni
Barnadjasshátíð í Mosfellsbæ sú fyrsta sinnar tegundar
Dagana 22.-25. júní verður hátíðin Barnadjass í Mosó haldin í fyrsta skipti.
Menningarmars í Mosó
Menningarmars í Mosó er nýtt verkefni á vegum Mosfellsbæjar sem hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og hjálpa þeim sem að því standa að kynna sig.
Glæsilegt aðkomutákn vígt við Úlfarsfell
Á 30 ára afmæli bæjarins hinn 9. ágúst 2017 var tekin ákvörðun um að efna til hönnunarsamkeppni um aðkomutákn Mosfellsbæjar.