Veður hefur versnað á höfuðborgarsvæðinu og eru foreldrar og forráðamenn beðnir að sækja börn sín í lok skóla eða frístundastarfs.
Börn eru óhult í skóla og frístundastarfi þar til þau verða sótt. Hér er átt við börn yngri en 12 ára.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hefur verið falið af sveitarfélögunum á svæðinu að fylgjast með veðri og veðurspám og senda út tilkynningar ef á þarf að halda, eftir atvikum í samráði við lögreglu og fræðsluyfirvöld.
Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn fylgist sjálfir með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum upplýsingum sem gætu haft áhrif á skóla- og frístundastarf barnanna og hegði sér í samræmi við aðstæður hverju sinni. Aðstæður geta þróast með ófyrirséðum hætti og verið mismunandi eftir svæðum.
Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar eru opnar nema annað sé tilkynnt. Í upphafi skóladags getur mönnun skóla verið takmörkuð og geta foreldrar þá búist við því að starfsfólk leiti liðsinnis þeirra. Foreldrar eru hvattir til að taka slíkum óskum vel.
Foreldrar leggja ávallt sjálfir mat á það hvort fylgja þurfi barni í skóla, óháð því hvort tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.
Mikilvægt er að fólk fari ekki af stað til skóla eða vinnu ef það treystir sér ekki eða er vanbúið til farar, t.d. vegna vanbúinnar bifreiðar til vetraraksturs.
Tengt efni
Hlákutíð framundan samkvæmt veðurspá
Samkvæmt veðurspá fer veður hlýnandi á næstu dögum og því líklega hlákutíð framundan.
Vetrarþjónusta
Siðustu vikur hafa bæði verktakar og starfsfólk þjónustustöðvar verið kölluð út nánast daglega til að sinna verkefnum tengdum snjómokstri eða hálkuvörnum og starfsmenn þjónustustöðvar verið á vaktinni allan sólahringinn.
Gul veðurviðvörun fram að hádegi 18. janúar 2024
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli á gulri veðurviðvörun í nótt og fram að hádegi á morgun fimmtudaginn 18. janúar 2024.