Mosfellsbær, Sjóvá og Lögregla höfuðborgarsvæðisins hafa hafið samstarf um nágrannavörslu í Mosfellsbæ í samvinnu við íbúa.
Fyrsta gatan til að taka þátt í nágrannavörslu í Mosfellsbæ er Rituhöfði sem fékk í gær afhent skilti til að setja upp í götunni. Með því er auglýst að í götunni fari fram nágrannavarsla.
Nágrannavarsla hefur fyrir löngu sannað sig sem mikilvægur hlekkur í að fækka glæpum og þá sérstaklega innbrotum á heimili, í bíla og almennum þjófnaði á eigum fólks. Þar sem nágrannavarsla er virk hefur skemmdarverkum einnig fækkað og dregið úr veggjakroti.
Nágrannavarsla felst í samvinnu nágranna um að gera umhverfi sitt og heimili öruggari. Með því móti er leitast við að draga úr innbrotum, þjófnaði og skemmdarverkum. Nágrannavarsla hefur verið þekkt í áratugi og hefur víða verið sett upp með góðum árangri bæði á Íslandi og víða erlendis.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri afhenti Bryngeiri Jónssyni, tengilið við íbúa Rituhöfða, skiltið og lýsti yfir ánægju sinni með framtak íbúa á Rituhöfða og að hann vonaðist til þess að aðrir Mosfellingar tækju þetta til eftirbreytni.
Tengt efni
Jólatréð fyrir miðbæjartorg úr heimabyggð
Fjórða árið í röð er jólatréð fyrir miðbæjartorg sótt í Hamrahlíðarskóg.
Nóg um að vera í Mosfellsbæ í sumar
Mosfellsbær efstur á lista yfir spennandi ferðamannastaði á Íslandi