Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2018 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, fimmtudaginn 28. mars, og sýnir að Mosfellsbær stendur sem fyrr styrkum fótum.
Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 812 milljónir sem er um 500 milljóna betri afkoma en ráð var fyrir gert í fjárhagsáætlun ársins. Það skýrist af auknum tekjum vegna hærri launatekna íbúa, meiri umsvifa í sveitarfélaginu og lægri fjármagnskostnaðar en ráð var fyrir gert.
Aðrar helstu kennitölur
Tekjur ársins námu alls um 11.252 milljónum, launakostnaður 4.850 milljónum og annar rekstrarkostnaður var 4.672 milljónir og framlegð nemur því 1.730 milljónum. Veltufé frá rekstri er 1.508 milljónir eða rúmlega 13,4% af tekjum. Eigið fé í árslok nam því 6.782 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 35,6%. Skuldaviðmið fer lækkandi og er 77,6% og því vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.
Skuldastaða sveitarfélagsins er traust og í takti við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Sú uppbygging er til samræmis við markmið sveitarfélagsins um framúrskarandi þjónustu við alla aldurshópa um leið og þörfum nýrra íbúa er mætt.
Íbúum í Mosfellsbæ hefur fjölgað um 1.000 tvö ár í röð og öflugur rekstur og sterk fjárhagsstaða auðveldar samfélaginu að taka vel á móti nýjum íbúum og tryggja öllum íbúum framúrskarandi þjónustu.
Áfram verður unnið að uppbygging innviða í Mosfellsbæ en stærstu verkefnin sem sveitarfélagið hefur með höndum nú er bygging Helgafellsskóla og fjölnota knatthúss sem tekið verður í notkun í haust.
Íbúar Mosfellsbæjar voru 11.463 um síðustu áramót og nemur fjölgunin 8,5% á milli ára sem er meiri fjölgun en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 713 starfsmenn í 574 stöðugildum í árslok 2018.
Ábyrgur rekstur málaflokka
Rekstur málaflokka gekk vel og er í ágætu samræmi við fjárhagsáætlun en rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 8.168 milljónum en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að verja 8.226 milljónum til reksturs málaflokka. Hér er frávikið 58 milljónir sem er 0,7% undir fjárhagsáætlun.
Fræðslumál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn en til hans var varið 4.435 milljónum eða 49,47% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.661 milljónum og eru þar meðtalin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundamál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 989 milljónum. Til fræðslu-, félagsþjónustu og íþrótta- og tómstundamála er því varið um 79% skatttekna Mosfellsbæjar.
Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 3. apríl 2019 og gert er ráð fyrir því að seinni umræða í bæjarstjórn fari fram þann 17. apríl.
Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 525-6700.
Tengt efni
Hátt fjárfestingarstig í Mosfellsbæ
Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.
Rekstrarafgangur Mosfellsbæjar áætlaður tæpur milljarður árið 2024
Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem var lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 6. desember, er lögð áhersla á ábyrgan rekstur samhliða mikilli uppbyggingu innviða, háu þjónustustigi og lágum gjöldum til barnafjölskyldna.