Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, þriðjudaginn 30. mars og ber reksturinn þess merki að heimsfaraldur ríkti á árinu með tilheyrandi kólnun í hagkerfinu.
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, þriðjudaginn 30. mars og ber reksturinn þess merki að heimsfaraldur ríkti á árinu með tilheyrandi kólnun í hagkerfinu.
Rekstrarniðurstaða ársins er neikvæð um 541 milljón sem er um 770 milljóna lakari afkoma en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það skýrist helst af lægri tekjum vegna lækkunar launatekna íbúa, minni íbúafjölgun í sveitarfélaginu, minnkandi framlaga frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til málefna fatlaðs fólks og aukins fjármagnskostnaðar. Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Þá var töluvert framkvæmt á árinu bæði til þess að geta tekið við fjölgun íbúa sem var hlutfallslega næst mest í Mosfellsbæ þegar litið er til höfuðborgarsvæðisins, til að byggja upp tæknilega innviði sveitarfélagsins um leið og áskorun stjórnvalda um auknar opinberar framkvæmdir var tekið.
Helstu tölur um rekstur ársins 2020
Tekjur ársins námu alls um 13.007 milljónum, launakostnaður 6.666 milljónum og annar rekstrarkostnaður var 5.704 milljónir og nemur framlegð því 638 milljónum. Veltufé frá rekstri er 495 milljónir eða 3,8% af tekjum. Eigið fé í árslok nam því 6.882 milljónum og eiginfjárhlutfallið er 29,0%. Skuldaviðmið er 99,8% og því vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum. Skuldastaða sveitarfélagsins er í takti við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Sú uppbygging er í fullu samræmi við framtíðarsýn sveitarfélagsins um að vera fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgaði um 469 á árinu 2020 og traustur daglegur rekstur og sterk fjárhagsstaða þrátt fyrir ytri áföll auðveldar samfélaginu að taka vel á móti nýjum íbúum og jafnframt tryggja íbúum þjónustu af gæðum sem eftir er tekið.
Framkvæmdir á vegum Mosfellsbæjar á árunum 2019 og 2020 voru í sögulegu hámarki enda sveitarfélagið í góðum vexti þó hægt hafi á honum. Samtals var framkvæmda- og uppbyggingakostnaður á árinu 2020 2,8 milljarðar króna og má þar nefna byggingu Helgafellsskóla, uppbygging íþróttamannvirkja, endurbætur á skólahúsnæði auk gatnaframkvæmda svo nokkuð sé nefnt.
Íbúar Mosfellsbæjar voru 12.565 1. desember 2020 og nemur fjölgunin 3,9% á milli ára sem er minni fjölgun en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mosfellsbær er sem fyrr sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 818 starfsmenn í 673 stöðugildum í árslok 2020.
Ábyrgur rekstur málaflokka
Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 11.036 milljónum.
Fræðslumál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn en til hans var varið 6.086 milljónum eða 57,48% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 2.099 milljónum og eru þar meðtalin framlög vegna málefna fatlaðs fólks. Loks eru íþrótta- og tómstundamál þriðja umfangsmesta verkefni bæjarins og til þeirra var ráðstafað um 1.228 milljónum. Til fræðslu-, félagsþjónustu og íþrótta- og tómstundamála er því varið um 89% skatttekna Mosfellsbæjar.
Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 7. apríl 2021 og gert er ráð fyrir því að seinni umræða í bæjarstjórn fari fram þann 21. apríl.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:
„Ársreikningur fyrir árið 2020 endurspeglar þann skugga sem heimsfaraldurinn varpar á starfsemi sveitarfélaga en einnig sterka stöðu Mosfellsbæjar til að mæta tímabundinni fjárhagslegri ágjöf. Við hjá Mosfellsbæ viljum vera til fyrirmyndar varðandi rekstur og þróun starfseminnar þannig að íbúar og starfsmenn séu á hverjum tíma meðvitaðir um gæði þjónustunnar og kostnað við að veita hana. Minnkandi skatttekjur vegna áhrifa kórónaveirunnar á efnahag sveitarfélaga hefur neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið er rekið af ábyrgð með áherslu á komandi kynslóðir og ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 sýnir að við höfum hafið okkar viðspyrnu um leið og við verjum þjónustu við íbúa af fullu afli. Efnahagsleg áhrif faraldursins eru það mikil á rekstur sveitarfélagsins að óhjákvæmilegt er annað en að bæjarsjóður verði rekinn með halla um sinn. Hinn möguleikinn hefði verið að skera verulega niður í rekstri og þjónustu sveitarfélagsins en það er ekki skynsamleg stefna við ríkjandi aðstæður. Skilvirkur rekstur og sterk fjárhagsstaða auðveldar okkur að taka vel á móti nýjum íbúum og þjónustan er vel metin af íbúum samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar Gallup. Sem fyrr vil ég nota þetta tilefni til að þakka starfsmönnum Mosfellsbæjar, kjörnum fulltrúum og nefndarfólki fyrir þeirra þátt í þeim árangri sem við höfum náð og brýna okkur til góðra verka á næstu misserum.“
Tengt efni
Áætlaður rekstrarafgangur 702 milljónir á árinu 2025
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 endurspeglar hátt fjárfestingarstig og forgangsröðun í þágu barna og unglinga.
Hátt fjárfestingarstig í Mosfellsbæ og forgangsröðun í þágu barna og unglinga
Áætlaður rekstrarafgangur er 716 milljónir króna árið 2025.
341 milljón króna afgangur af rekstri Mosfellsbæjar
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 var lagður fram á fundi bæjarráðs í dag, mánudaginn 15. apríl 2024. Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 341 milljón.