Reglugerðir Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um sóttvarnaráðstafanir sem taka gildi þriðjudaginn 20. október hafa verið staðfestar.
Annars vegar er ný reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar og hins vegar breyting á reglugerð um takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar.
Heilbrigðisráðuneytið birti tilkynningu síðastliðinn föstudag þar sem gerð var grein fyrir meginefni áformaðra breytinga á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi næstkomandi þriðjudag en með þeim fyrirvara að nákvæm útfærsla einstakra þátta yrði skýrð með reglugerð. Við smíði reglugerðarinnar voru höfð að leiðarljósi þau meginsjónarmið sóttvarnaráðstafana að gætt sé því að fólk haldi fjarlægð sín á milli, komi ekki saman í stórum hópum og deili ekki sameiginlegum snertiflötum nema þeir séu sótthreinsaðir á milli einstaklinga. Jafnframt eru lýðheilsusjónarmið lögð til grundvallar með áherslu á að sem flestir geti stundað íþróttir og heilsurækt í einhverjum mæli.
Vakin er athygli á 5. gr. meðfylgjandi reglugerðar um takmarkanir á samkomum varðandi útfærslu á nálægðartakmörkun í íþróttum o.fl. og bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar sem kveður á um strangari takmarkanir á höfuðborgarsvæðinu en gilda á landsvísu.
Íþróttir og keppnir á höfuðborgarsvæðinu
- Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
- Heimildir fyrir íþróttastarfi, æfinga og keppna á vegum ÍSÍ gilda ekki á höfuðborgarsvæðinu.
- Íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri, þar með talið skólasund, sem krefst meiri snertingar og frekari blöndunar hópa en í skólastarfi, er óheimilt á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Kjósarhreppi, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.
Íþróttir og keppnir utan höfuðborgarsvæðisins
- Þrátt fyrir 2 metra nálægðartakmörk eru snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum á vegum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), en virða skal 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Þrátt fyrir 20 manna fjöldatakmörk er allt að 50 einstaklingum heimilt að koma saman á æfingum og í keppnum á vegum ÍSÍ. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum.
- Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
Tengt efni
Covid-19 rýni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu
COVID-19 faraldrinum er ekki lokið en, þó lítið sé um stórar aðgerðir hér á Íslandi.
Staða Covid-19 faraldurs 10. mars 2022
Gríðarlega mikil útbreiðsla Covid-19.
Covid-19: Aflétting allra takmarkana innanlands og á landamærum