COVID-19 faraldrinum er ekki lokið en, þó lítið sé um stórar aðgerðir hér á Íslandi.
Í þeim aðgerðum sem voru í gangi vegna COVID-19, spiluðu sveitarfélögin stórt hlutverk og voru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu alls ekki undanþegin.
Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru með starfandi neyðarstjórn sem voru virkar þegar þess þurfti. Hlutverk þeirra er að halda uppi þjónustu og starfsemi sveitarfélaganna á almannavarnatímum.
Tilkynning frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins
Til að halda uppi þjónustu og starfsemi miðað við þær reglugerðir sem voru í gildi og samhæfa aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu, funduðu sviðstjórar skóla- og frístundasviða, velferðarsviða og fulltrúar íþróttastarfs og menningar reglulega og eins oft og þurfti með almannavörnum á höfuðborgarsvæðinu. Fundað var í hvert skipti sem ný reglugerð leit dagsins ljós en þær voru alls 166 á tímabilinu 27. janúar 2020- 24. febrúar 2022. Upplýsingafulltrúar sveitarfélagana voru í lykilhlutverki við að koma upplýsingum áleiðis til íbúa, starfsfólks og annarra aðila.
Þessa dagana er verið að draga lærdóm af aðgerðunum og til að vera betur undirbúin fyrir næstu vá. Á meðfylgjandi mynd er starfsfólk almannavarna og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins ásamt upplýsingafulltrúum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu eftir rýnifund í morgun.
Það sem upp úr stendur er ótrúleg elja og útsjónarsemi starfsfólks sveitarfélaga við krefjandi aðstæður og eiga þau hrós skilið fyrir það.