Römpum upp Ísland hefur unnið að því mikilvæga og þarfa verkefni í sumar að setja upp 42 nýja rampa við 10 opinberar stofnanir í Mosfellsbæ.
Bæjarráð samþykkti í janúar síðastliðnum að halda áfram samstarfi við Römpum upp Ísland og eru ramparnir nú orðnir 128 hér í bæ.
Eitt af verkefnum sumarsins var við Leirvogstunguskóla þar sem Römpum upp Ísland lagði 8 rampa til að auðvelda aðgengi inn í skólann. Auk þess gerði Mosfellsbær rampa innandyra, setti sjálfvirka opnun á útihurð, lagði snjóbræðslu og lækkaði kant að nýju bílastæði fyrir hreyfihamlaða til að bæta aðgengismál við skólann.
Einnig var aðgengi bætt við eftirfarandi stofnanir: Íþróttamiðstöðina Lágafell, Brúarland, Hlégarð, Krikaskóla, Helgafellsskóla og við leikskólana; Hlaðhamra, Hlíð, Hulduberg og Höfðaberg.
Verkefnið Römpum upp Ísland stefnir að því að byggja 1.500 rampa á Íslandi fyrir 11. mars 2025 í þágu hreyfihamlaðra. Að verkefninu koma margir styrkaraðilar, þeirra á meðal: Ueno, Össur, Deloitte, Brandenburg, Aton.JL, Lex lögmannsstofa, BM Vallá, Icelandair, Orkan, ÞG Verk, Sjálfsbjörg, ÖBÍ, Reykjavíkurborg og Innviðaráðuneytið.
Mosfellsbær þakkar Römpum upp fyrir gott samstarf og fagleg vinnubrögð.