Mosfellsbær og Hopp hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um rekstur á stöðvalausri deilileigu fyrir rafskútur í Mosfellsbæ.
Leigan fer fram í gegnum smáforrit í snjallsíma þar sem að unnt er að sjá hvar næsta lausa rafskúta er staðsett. Upphafsstöðvar verða við íþróttamiðstöðvar og við miðbæjartorg en notendur geta skilið við hjólin þar sem þeim hentar. Það er þó mikilvægt að skilja við hjólin með ábyrgum hætti og þannig að þau séu ekki í vegi fyrir annarri umferð.
,,Það er frábært að fá rafskútur sem viðbótar valkost í samgöngumálum í Mosfellsbæ“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Hún brýnir fyrir bæjarbúum að ganga vel um skúturnar en um er að ræða þriggja mánaða tilraunaverkefni. ,,Það fer eftir hversu vel gengur, hvort við höldum áfram að bjóða upp á þennan valkost“ segir Regína en samningurinn við Hopp gildir til 30. september.
Í samningnum kemur fram að Hopp muni tryggja að rafskútum sé dreift þannig að annarri umferð, jafnt gangandi, hjólandi eða akandi, stafi ekki hætta af og í samræmi við umferðarlög. Sérstaklega skal gætt að aðgengi hreyfihamlaðra við dreifingu rafskútnanna. Hopp mun kynna notendum sínum með reglubundnum hætti að rafskútum skuli leggja þannig að ekki stafi hætta eða óþægindi af, og í samræmi við umferðarlög. Jafnframt skal Hopp upplýsa notendur um að þeir skuli ferðast á eðlilegum gönguhraða þar sem hjól eru innan um gangandi vegfarendur, t.d. á gangstéttum og blönduðum stígum, í samræmi við ákvæði umferðalaga. Hopp mun hvetja notendur til að nota hjálm við akstur rafskútna.
Innleiðing rafhlaupahjóla í Mosfellsbæ er meðal annars í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.