Mosfellsbær er um 13.000 manna bæjarfélag sem vaxið hefur ört undanfarin ár. Íbúafjölgun er ein sú mesta á landinu, enda virðist eftirsóknarvert að búa í grænum bæ með ríka tengingu við náttúru og útivist, og þá blöndu borgarsamfélags og sveitar sem þar er að finna. Bærinn er í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, er um 220 ferkílómetrar að stærð og státar af víðáttumiklum náttúrulegum svæðum með fell, heiðar, vötn og strandlengju.
Tilgangur
Umhverfisnefnd Mosfellsbæjar ákvað í árslok 2017 að setja fram metnaðarfulla stefnu um hvernig Mosfellsbær skuli þróast á sjálfbæran og framsækinn hátt á næstu árum og áratugum. Markmiðið er að í Mosfellsbæ byggist upp til framtíðar enn sterkara og heilbrigðara samfélag öllum til heilla. Lögð er áhersla á sérstöðu og sjálfstæði bæjarfélagsins en einnig á stöðu bæjarins og hlutverk í samfelldri byggð höfuðborgarsvæðisins.
Tilgangurinn með umhverfisstefnu er margþættur, m.a. að:
auka umhverfisvitund íbúa
stuðla að heilsusamlegra samfélagi
auka lífsgæði íbúa
tryggja hreina og óspillta náttúru
hvetja til aukinnar útivistar
hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi í starfsemi bæjarins
Vinna að sjálfbærni
Mosfellsbæ er annt um umhverfi sitt og hefur unnið ötullega að sjálfbærnimarkmiðum á undanförnum árum.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í janúar 2001 framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun fyrir sveitarfélagið, Staðardagskrá 21. Mosfellsbær hlaut viðurkenningu fyrir útgáfu á Sólargeislanum, fréttabréfi um Staðardagskrá 21 í Mosfellsbæ, og Staðardagskrárverðlaunin 2001.
Árið 2008 var ákveðið að ráðast í heildarendurskoðun á Staðardagskrá 21 fyrir Mosfellsbæ. Stefnumótun Mosfellsbæjar um sjálfbært samfélag til 2020 var samþykkt í ágúst 2009, ásamt framkvæmdaáætlun þar sem fram kom listi yfir fjölda verkefna
er snúa að sjálfbærri þróun, og árlegum verkefnalista sem unninn skyldi í samráði við nefndir og stofnanir bæjarins, þar sem fram koma tímasett og mælanleg markmið.
Stefnan var vel kynnt og gerð aðgengileg íbúum á vef bæjarins og bæklingur sendur á hvert heimili í bænum.
Mosfellsbær hefur einnig tekið þátt í ýmsum verkefnum um sjálfbærni. Þar má nefna þátttöku í norrænu samstarfsverkefni um sjálfbærni og uppbyggingu betri miðbæja og íbúalýðræði (Attractive Nordic Towns), sem hófst haustið 2017 og stóð til 2019.
Mosfellsbær ákvað í lok árs 2017 að hefja vinnu við endurskoðun á nýrri umhverfisstefnu fyrir bæinn. Lögð var áhersla á að umhverfisstefnan yrði unnin í góðu samráði við íbúa Mosfellsbæjar og endurspeglaði þau markmið um sjálfbæra þróun sem kæmu fram í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Vinna við nýja umhverfisstefnu hófst í ársbyrjun 2018 undir leiðsögn umhverfisnefndar og í samstarfi við umhverfissvið Mosfellsbæjar.
Ný umhverfisstefna Mosfellsbæjar var samþykkt á 204. fundi umhverfisnefndar þann 24. október 2019 og á 748. fundi bæjarstjórnar þann 30. október 2019,og gefin út í árslok 2019.
Við gerð nýrrar umhverfisstefnu var haldinn íbúafundur um umhverfismál í mars 2018 þar sem kallað var eftir áherslum íbúa varðandi umhverfismál og sjálfbærni í Mosfellsbæ. Sú vinna fór fram í vinnustofu undir handleiðslu ráðgjafa frá KPMG. Vinnan tókst vel og margar góðar hugmyndir komu þar fram.
Unnið var með eftirfarandi áhersluflokka og fengu fundargestir það verkefni að setja fram sínar hugmyndir að markmiðum, mikilvægar aðgerðir til að ná þeim markmiðum og hvað íbúar sjálfir gætu gert til að hrinda markmiðunum í framkvæmd. Niðurstöður fundarins voru að leggja áherslu á ákveðna málaflokka, en þeir eru:
Skógrækt og landgræðsla
Vatnsvernd og náttúruvernd
Umhverfisfræðsla
Útivist og lýðheilsa
Mengun, hljóðvist, loftgæði og samgöngur
Endurvinnsla, neysla og græn innkaup
Uppbygging umhverfisstefnu
Umhverfisstefna Mosfellsbæjar er nokkurs konar regnhlíf yfir hinum ýmsu stefnum bæjarfélagsins sem snúa að umhverfismálum og sjálfbærni. Þar eru sett fram markmið í hinum ýmsu málaflokkum og tilgreindar þær leiðir eða þau verkefni sem stuðlað geti að því að þeim markmiðum verði náð.
Málaflokkarnir eru eftirfarandi:
Umhverfisfræðsla
Skógrækt og landgæði
Samgöngur
Útivist og lýðheilsa
Mengun, hljóðvist og loftgæði
Neysla og úrgangur
Náttúruvernd og vatnsvernd
Dýrahald og landbúnaður
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Við gerð umhverfisstefnu Mosfellsbæjar voru höfð til hliðsjónar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þau verkefni sem falla undir þau.
Í hverjum kafla er gerð sérstaklega grein fyrir því til hvaða kafla heimsmarkmiðanna er horft. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmiðum.
Sérstaklega er horft til 11 kafla heimsmarkmiðanna sem snúa að sjálfbærni sveitarfélaga, skipulagi þeirra og uppbyggingu. Einnig koma margir fleiri kaflar markmiðanna við sögu.
Hér má sjá tengingar hvers málaflokks í umhverfisstefnunni við aðalflokka heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun:
Umhverfisfræðsla: 4, 11, 12, 13
Skógrækt og landgæði: 11, 15
Samgöngur: 3, 11, 13
Útivist og lýðheilsa: 11, 15
Mengun, hljóðvist og loftgæði: 3, 6, 11, 13
Neysla og úrgangur: 11, 12
Náttúruvernd og vatnsvernd: 6, 11, 14, 15
Dýrahald og landbúnaður: 15
Umhverfisstefna 2019 - 2030
Endurskoðun á umhverfisstefnu Mosfellsbæjar tengist beint þeirri stefnumótun sem fram fór hjá Mosfellsbæ árið 2017 og gildir til ársins 2027. Að þeirri vinnu komu starfsmenn Mosfellsbæjar og kjörnir fulltrúar.
Framtíðarsýn Mosfellsbæjar til ársins 2027 er þessi:
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.
Eins og hér sést er umhverfið í öndvegi í framtíðarsýninni og endurspeglar vel þá
miklu áherslu sem lögð er á umhverfismál í Mosfellsbæ, fyrr og nú.
Gildi Mosfellsbæjar, sem eiga að vera leiðarljós í allri starfsemi sveitarfélagsins, voru mótuð árið 2007 og útfærð og skilgreind að nýju á starfsdegi starfsmanna haustið 2016 en gildin eru:
jákvæðni, virðing, umhyggja og framsækni
Áhersluflokkar í stefnu Mosfellsbæjar eru:
rétt þjónusta
flott fólk
stolt samfélag
Undir hverjum flokki er svo áhersla sem er birt með þessum hætti. Þannig vill sveitarfélagið vera sjálfbært, samstarfsfúst og heilbrigt, allt áherslur þar sem vísað er til umhverfismála og samstarfs.
Hvað varðar áhersluna á sjálfbærni sem er undir áhersluflokknum stolt samfélag kemur þar fram að umhverfisvitund er efld með fræðslu og góðu fordæmi, byggð fellur vel að landi, náttúru og bæjarbragnum.
Sjálf áherslan á sjálfbærni er orðuð svona: Við látum umhverfið okkur varða og sinnum málaflokknum af kostgæfni. Nálægð við náttúruperlur og vernd þeirra er nýtt samfélaginu til góðs og til að vekja athygli á sveitarfélaginu. Með áherslunni er m.a. litið til þess að virkja félagsauðinn og sterkar tengingar milli fólks til að vernda náttúruna.
Loks er áherslan á að vera heilbrigð með tengingu við heilsueflandi samfélag og gott aðgengi að náttúruperlum sveitarfélagsins.
Umhverfisstefna Mosfellsbæjar getur þannig stutt við að ná fram þeim áherslum sem hér hafa verið nefndar sérstaklega.
1. Umhverfisfræðsla
Umhverfisvitund bæjarbúa verði aukin til að bæta lífsgæði og vernda náttúruna með því að umgangast umhverfi og náttúru af þekkingu og virðingu.
Markmið
Íbúar þekki umhverfi bæjarins og umgangist náttúruna af nærgætni og þekkingu.
Leiðir að markmiðum
Fræðsluefni um náttúru Mosfellsbæjar verði aðgengilegt fyrir íbúana.
Upplýsingar um umhverfismál verði aðgengilegar íbúum.
Boðið verði upp á fræðslufundi og viðburði í samráði við félagasamtök um umhverfisvernd og útivist.
Fyrirtæki verði hvött til að bera virðingu fyrir umhverfinu og sýna ábyrgð í umhverfismálum, t.d. með því að setja sér stefnu í málaflokknum.
Mosfellsbær hafi frumkvæði að fræðslu um loftslagsmál, sjálfbærni og ábyrga neyslu.
Markmið
Lögð verði áhersla á margþætta umhverfisfræðslu til barna og ungmenna í skólum og vinnuskóla Mosfellsbæjar, með sjálfbærni og umhverfisvitund að leiðarljósi.
Leiðir að markmiðum
Mosfellsbær stuðli að uppsetningu útikennslusvæða í nágrenni skóla.
Fræðsla um loftslagsmál, sjálfbærni og önnur umhverfismál verði hluti af kennslu í skólum bæjarins.
Útbúið verði kynningarefni um umhverfismál fyrir vinnuskólann.
Allir skólar bæjarins vinni að innleiðingu grænfánavottunar.
2. Skógrækt og landgæði
Að tryggja skynsamlega og hagkvæma landnýtingu og landgæði, með áherslu á uppbyggingu skógræktarsvæða, verndun líffræðilegrar fjölbreytni og uppbyggingu vistkerfa.
Markmið
Að skógrækt í Mosfellsbæ verði með ábyrgum og skipulögðum hætti í sátt við umhverfi og íbúa. Skógur verði í meira mæli nýttur sem skjólgróður og skógræktarsvæði verði opin almenningi til útvistar.
Leiðir að markmiðum
Unnið verði að plöntun á skjólgróðri á völdum svæðum í bænum til að auka lífsgæði íbúa.
Garðyrkjudeild Mosfellsbæjar sinni í samstarfi við skógræktarfélagið og almenning grisjun, stígagerð og viðhaldi
skógarsvæða.
Upplýsingar um starf og áætlanir Skógræktarfélags Mosfellsbæjar verði kynntar fyrir umhverfisnefnd Mosfellsbæjar árlega.
Haldnir verði fræðslufundir fyrir bæjarbúa um skógræktarmál í samstarfi við Skógræktarfélag Mosfellsbæjar.
Unnið verði grænt skipulag fyrir Mosfellsbæ og það gert að veigamiklum þætti í aðalskipulagi bæjarins.
Markmið
Komið verði í veg fyrir skemmdir á landsvæðum og unnið verði að uppgræðslu örfoka mela. Stefnt verði að endurheimt votlendis og birkiskóga.
Leiðir að markmiðum
Aukin áhersla verði lögð á uppgræðslu örfoka lands og að draga úr jarðvegsrofi.
Samstarf verði aukið við Landgræðsluna um uppgræðslu lands.
Unnið verði að því að koma í veg fyrir landbrot af völdum fallvatna.
Unnið verði að endurheimt mikilvægra vistkerfa eins og votlendis og birkiskóga þar sem þess er kostur.
Reglur Mosfellsbæjar um framkvæmdir á viðkvæmum svæðum í Mosfellsbæ verði aðgengilegar á vef bæjarins.
3. Samgöngur
Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með uppbyggingu vistvænna samgangna. Hlutur almenningssamgangna verði aukinn, hjólreiðar
verði raunverulegur valkostur og stutt verði við orkuskipti í samgöngum. Áhersla verði á umferðaröryggi.
Markmið
Aukin áhersla verði á vistvænar samgöngur og aukna notkun
almenningssamgangna.
Leiðir að markmiðum
Tryggt verði að öll hverfi í sveitarfélaginu hafi góðan aðgang að almenningssamgöngum.
Við skipulag nýrra hverfa og svæða verði sérstaklega hugað að aðgengi að vistvænum samgöngum og hjólreiðastæðum.
Mosfellsbær beiti sér fyrir eflingu almenningssamgangna, eins og Borgarlínu, í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Starfsmenn Mosfellsbæjar séu hvattir til þess að nýta sér vistvænar samgöngur til og frá vinnu, t.d. með samgöngustyrk.
Mosfellsbær taki áfram virkan þátt í Evrópsku samgönguvikunni og Bíllausa deginum, viðburðum sem haldnir eru ár hvert.
Markmið
Lögð verði áhersla á að tryggja gott aðgengi að göngu- og hjólastígum í sveitarfélaginu með áherslu á umferðaröryggi.
Leiðir að markmiðum
Unnið verði að fjölgun göngu- og hjólreiðastíga og viðhaldi núverandi stíga.
Við skipulagningu göngu- og hjólreiðastíga verði hugað að skjólmyndun og hljóðvistarmálum.
Samræming í uppbyggingu lykilleiða og merkingum hjólreiðastíga verði í samráði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Kort sem sýnir lykilleiðir hjólreiða sem tengja saman helstu hjólastíga höfuðborgarsvæðisins verði gert aðgengilegt á vef bæjarins.
Sérstaklega verði hugað að skipulagningu og lagningu hjólastíga samhliða uppbyggingu gatna og göngustíga í nýjum hverfum bæjarins.
Leitast verði við að aðskilja umferð hjólandi og gangandi með aðgreiningu stíga.
Hugað verði að fjölgun gangbrauta eða undirganga við umferðarþunga vegi.
Hugað verði að viðhaldi göngu- og hjólreiðastíga, sérstaklega í eldri hverfum.
Tryggt sé að allir göngu- og hjólreiðastígar verði merktir inn á kortavef Mosfellsbæjar til upplýsingar fyrir íbúa.
Markmið
Að bærinn verði þátttakandi í orkuskiptum í samgöngum og að innviðir í sveitarfélaginu styðji við tækniþróun sem framundan er.
Leiðir að markmiðum
Stuðlað sé að uppbyggingu hleðslustöðva við stofnanir sveitarfélagsins og hugað að tengingum fyrir rafbíla í nýbyggingum á vegum bæjarins.
Hugað sé að uppbyggingu innviða fyrir hleðslu á rafbílum í nýbyggingum og við endurbyggingu húsa, í samræmi við byggingarreglugerð.
Mosfellsbær auki hlut vistvænna bíla í starfsemi sinni og þjónustu.
4. Útivist og lýðheilsa
Stuðlað verði að útivist og heilsueflingu í sveitarfélaginu og að íbúar í Mosfellsbæ hafi gott aðgengi að útivistarsvæðum og heilsueflandi þjónustu sem leiði til bættrar lýðheilsu. Stuðlað verði að því að nærumhverfi bæjarbúa verði fallegt og snyrtilegt.
Markmið
Að allir íbúar hafi gott aðgengi að útivistarsvæðum með góðri aðstöðu.
Leiðir að markmiðum
Áfram verði unnið að uppbyggingu útivistarsvæða og auðveldu aðgengi fyrir alla.
Reglulegt eftirlit fari fram með viðhaldi opinna leiksvæða í bænum.
Mosfellsbær verði áfram virkur þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi samfélag.
Unnið verði að fjölgun bekkja og áningarsvæða.
Upplýsingar um fjölbreyttar útivistarleiðir og fræðsluskilti verði aðgengilegar íbúum.
Áfram verði unnið að uppbyggingu Ævintýragarðsins í Ullarnesbrekkum sem fjölbreytts útivistarsvæðis fyrir alla fjölskylduna og aðgengi bætt.
Markmið
Aðgengi að útivistarsvæðum og náttúru í Mosfellsbæ verði auðveldað.
Leiðir að markmiðum
Fjölgað verði merktum gönguleiðum, svo sem með stikum, fræðsluskiltum eða stígagerð.
Hugað verði að uppbyggingu og viðhaldi útivistarleiða á fjöllum og fellum.
Upplýsingar um útivistarsvæði og friðlýst svæði séu aðgengileg á vef bæjarins.
Samstarf verði aukið við Reykjavíkurborg um viðhald og verndun Úlfarsfells sem útivistarsvæðis til að auka útivistargildi og bæta aðgengi.
Markmið
Umhverfi Mosfellsbæjar verði fallegt og snyrtilegt.
Leiðir að markmiðum
Reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum þar sem íbúar, stofnanir og fyrirtæki eru hvött til að hreinsa opin svæði, stíga og götur í nærumhverfi sínu.
Íbúum verði gert kleift að taka svæði í fóstur til umhirðu og snyrtingar.
Sérstakt eftirlit verði haft með umgengni á byggingarsvæðum til að tryggja góðan frágang og koma í veg fyrir slysahættu.
Áfram verði veittar umhverfisviðurkenningar í Mosfellsbæ fyrir góðan árangur í umhverfismálum.
5. Mengun, hljóðvist og loftgæði
Að draga úr áhrifum mengunar í umhverfinu og koma í veg fyrir mengun í ám og vötnum.
Markmið
Að draga úr áhrifum mengunar, hvort sem er í lofti, á láði eða legi.
Leiðir að markmiðum
Áhersla verði lögð á gott samstarf við hið opinbera, sveitarfélög, einstaklinga, fyrirtæki og Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis til þess að daga úr mengun og bæta umgengni í nærumhverfi okkar.
Brugðist verði skjótt við öllum ábendingum eða vísbendingum um mengun.
Markmið
Lögð verði áhersla á örugg og heilsusamleg loftgæði fyrir íbúa og dregið verði úr mengun frá bílaumferð.
Leiðir að markmiðum
Mælingar fari fram á loftgæðum í Mosfellsbæ.
Götur og stígar verði hreinsuð af fokefnum þegar ástæða er til, t.d. vegna framkvæmda.
Íbúar, fyrirtæki og stofnanir verði hvött til að draga úr notkun nagladekkja eins og kostur er.
Unnið verði markvisst að því að draga úr lyktarmengun í bænum.
Markmið
Mosfellsbær verði í fararbroddi við að kolefnisjafna starfsemi sína og stefni á kolefnishlutleysi.
Leiðir að markmiðum
Stutt verði við landgræðslu og skógrækt í sveitarfélaginu til kolefnisbindingar, í samstarfi við skógræktarfélög og aðra hagsmunaaðila.
Komið verði í veg fyrir framræslu votlendis og jarðvegseyðingu.
Stefnt verði að samstarfi við Kolvið um Kolviðarskóga í útmörk sveitarfélagsins til kolefnisbindingar.
Mosfellsbær styðji við og stuðli að kolefnisjöfnun fyrirtækja og stofnana með samstarfi við Kolvið og skógræktarfélögin.
6. Neysla og úrgangur
Að draga úr myndun úrgangs, auka endurvinnslu og endurnýtingu, minnka notkun á plastpokum, einnota vörum og matarsóun. Aukin áhersla verði á vistvæn innkaup og aðgengi að vistvænum vörum og vörum framleiddum í heimabyggð.
Markmið
Aðgengi að vistvænum vörum verði aukið.
Leiðir að markmiðum
Mosfellsbær setji vistvæn innkaup á dagskrá í rekstri bæjarins.
Fræðsla um vistvæn innkaup verði gerð aðgengileg almenningi og íbúar hvattir til að huga að slíkri neyslu.
Fyrirtæki í Mosfellsbæ verði hvött til að bjóða vistvænar eða umhverfismerktar vörur og vörur framleiddar í heimabyggð.
Mosfellsbær bjóði íbúum garðlönd á hagstæðu verði.
Markmið
Mosfellsbær stuðli að því að dregið verði úr notkun á einnota plasti/vörum og matarsóun.
Leiðir að markmiðum
Fyrirtæki og íbúar í Mosfellsbæ verði hvött til þess að draga úr notkun á plasti og öðrum óumhverfisvænum umbúðum í sinni starfsemi.
Hvatt verði til þess að notkun helíumblaðra sé hætt vegna neikvæðra áhrifa á dýralíf og vistkerfi jarðar.
Dregið verði úr notkun einnota vara í stofnunum bæjarins eins og kostur er.
Unnið verði með mötuneytum í stofnunum bæjarins að því að draga úr matarsóun.
Markmið
Unnið verði að þróun lausna í úrgangsstjórnun til hagsbóta fyrir íbúa, í samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Leiðir að markmiðum
Upplýsingar um leiðir til flokkunar á heimilissorpi verði aðgengilegar íbúum, t.d. á vef bæjarins og/eða í upplýsingum til nýrra íbúa.
Upplýsingar um grenndarstöðvar, gámastöðvar og aðrar flokkunarleiðir verði aðgengilegar fyrir almenning, svo sem á vef bæjarins.
Unnið verði að fjölgun grenndargámastöðva í Mosfellsbæ.
Fyrirtæki og stofnanir bæjarins, sér í lagi skólarnir, noti lausnir sveitarfélagsins í úrgangsstjórnun til að tryggja samræmi í málaflokknum.
Mosfellsbær hafi frumkvæði að efldri samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í úrgangsmálum.
7. Náttúruvernd og vatnsvernd
Lögð verði áhersla á vernd náttúru, friðlýsingu náttúrusvæða og aðgengi almennings að þeim. Tryggt verði aðgengi að hreinu neysluvatni.
Markmið
Lögð verði áhersla á verndun fallegrar og ósnortinnar náttúru og áframhaldandi friðlýsingu náttúrusvæða.
Leiðir að markmiðum
Lögð verði áhersla á verndun strandlengjunnar og leirunnar við Leiruvog.
Unnið verði að friðlýsingu náttúruvætta og gerð friðlýsingaráætlana í Mosfellsbæ.
Upplýsingar um friðlýst svæði verði gerð aðgengileg almenningi í fræðsluefni, m.a. á vef bæjarins.
Markmið
Að stuðla að verndun Varmár, Köldukvíslar, Leirvogsár og annarra fallvatna og vatna í Mosfellsbæ sem mikilvægra útivistarsvæða í byggð.
Leiðir að markmiðum
Tekið verði tillit til hverfisverndar við framkvæmdir við ár og vötn, til verndunar á vatnasviði þeirra.
Farið verði í varanlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir bakkarof í Varmá til að tryggja gott og öruggt aðgengi meðfram ánni.
Markmið
Aðgengi að hreinu vatni verði áfram tryggt.
Leiðir að markmiðum
Virkt eftirlit verði haft með gæðum neysluvatns og mengunarmálum í vatnsbólum Mosfellsbæjar.
Markmið
Komið verði í veg fyrir mengun í regnvatnsfráveitu, ám og vötnum.
Leiðir að markmiðum
Brugðist verði strax við ábendingum og vísbendingum um hvers konar mengun í fráveitu.
Upplýsingar um neikvæð áhrif mengunar í regnvatnsfráveitu verði gerðar aðgengilegur íbúum.
Virkt eftirlit verði haft með ástandi og hreinsun rotþróa í Mosfellsbæ.
Við hönnun nýrra hverfa verði horft til blágrænna ofanvatnslausna.
Komið verði upp settjörnum þar sem þeirra er þörf.
8. Dýrahald og landbúnaður
Lögð verði áhersla á ábyrgt dýrahald í samræmi við lög og reglur.
Markmið
Ávallt verði lögð áhersla á velferð dýra.
Leiðir að markmiðum
Dýraeftirlit Mosfellsbæjar tilkynni alla slæma meðferð á dýrum til Matvælastofnunar sem fer með málefni dýravelferðar.
Gildandi reglur um dýrahald skulu vera aðgengilegar á vef Mosfellsbæjar.
Spornað verði við fjölgun refa, minka, vargfugla og meindýra í sveitarfélaginu með aðstoð meindýraeyða.
Markmið
Hlúð verði að sérstöðu Mosfellsbæjar sem sveitar í borg.
Leiðir að markmiðum
Landbúnaður verði í sátt við umhverfið og náttúruna, og í samræmi við græna ímynd bæjarfélagsins.
Vakin verði athygli á kostum dreifbýlis í Mosfellsbæ með áherslu á græna ímynd og tengsl við náttúruna.
Tryggja þarf að fráveitumál í dreifbýli séu fullnægjandi til að koma í veg fyrir mengun í ám og vötnum.
Áburðargjöf verði í samræmi við reglur um dreifingartíma og fyrirkomulag, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis.
Hundaeigendur verði hvattir til þess að skrá hunda sína hjá þjónustuveri Mosfellsbæjar.
Ítarefni
Þau undirmarkmið heimsmarkmiðanna sem horft er til í þeim markmiðum sem sett eru fram í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar.
3.6 Eigi síðar en árið 2020 verði búið að ná fjölda dauðsfalla og alvarlega slasaðra vegna
umferðarslysa niður um helming á heimsvísu.
3.9 Eigi síðar en árið 2030 verði komið í veg fyrir, svo um munar, dauðsföll og veikindi af völdum hættulegra efna og loft-, vatns- og jarðvegsmengunar.
Vakin er athygli á að markmiðið fjallar um heilbrigðisþjónustu og dauðsföll frekar en útivist og umhverfi.
4.7 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess að ýta undir sjálfbæra þróun, m.a. með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar
6.3 Eigi síðar en árið 2030 verði vatnsgæði aukin með því að draga úr mengun, útiloka óæskilega sorplosun og lágmarka losun hættulegra efna og efnablandna. Hlutfall óunnins skólps og frárennslisvatns verði minnkað um helming og endurvinnsla og örugg endurnýting aukin til muna um heim allan.
6.6 Eigi síðar en árið 2020 verði unnið að úrræðum til að vernda og endurheimta
vatnstengd vistkerfi, þ.m.t. fjalllendi, skóga, votlendi, ár, grunnvatnsból og vötn.
11.2 Eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum.
11.3 Eigi síðar en árið 2030 verði fjölgun í þéttbýli sjálfbær og íbúar alls staðar í heiminum taki meiri þátt í skipulagsmálum og samkomulagi um sjálfbærni.
11.4 Blásið til sóknar til þess að vernda og tryggja náttúru- og menningararfleifð heimsins.
11.6 Eigi síðar en árið 2030 verði dregið úr skaðlegum umhverfisáhrifum í borgum, m.a. með því að bæta loftgæði og meðhöndlun úrgangs.
11.7 Eigi síðar en árið 2030 verði græn svæði gerð örugg og aðgengileg fyrir almenning, einkum konur og börn, aldraða og fatlað fólk.
11.A Stutt verði við jákvæð efnahags-, félags- og umhverfisleg tengsl milli þéttbýlis, þéttbýlla svæða í borgarjaðri og dreifbýlissvæða með því að styrkja áætlanir um byggðaþróun á landsvísu og innan svæða.
12.2 Eigi síðar en árið 2030 verði markmiðum um sjálfbæra og skilvirka nýtingu náttúruauðlinda náð.
12.3 Eigi síðar en árið 2030 hafi sóun matvæla á smásölumarkaði og hjá neytendum minnkað um helming á hvern einstakling um heim allan. Nýting í matvælaframleiðslu og hjá birgðakeðjum verði bætt, þ.m.t. við uppskeru.
12.4 Eigi síðar en árið 2020 verði meðferð efna og efnablandna umhverfisvænni á öllum stigum, sem og meðhöndlun úrgangs með slíkum spilliefnum, í samræmi
við alþjóðlegar rammaáætlanir sem samþykktar hafa verið. Dregið verði verulega úr losun efna og efnablandna út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg í því skyni að lágmarka skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfið.
12.5 Eigi síðar en árið 2030 hafi forvarnir, minni úrgangur, aukin endurvinnsla og endurnýting dregið verulega úr sóun.
12.6 Fyrirtæki, einkum stór og alþjóðleg fyrirtæki, verði hvött til þess að innleiða sjálfbæra þróun í starfsemi sína og veita upplýsingar um sjálfbærni í skýrslum sem gefnar eru út á þeirra vegum.
12.7 Stuðlað verði að sjálfbæru verklagi við opinber innkaup í samræmi við innlenda stefnu og forgangsröðun.
12.8 Eigi síðar en árið 2030 verði tryggt að fólk um allan heim sé upplýst og meðvitað um sjálfbæra þróun og hvernig það getur lifað í sátt við náttúruna.
13.1 Auka viðbragðsáætlanir og forvarnir við vá af völdum loftslagsbreytinga og náttúruhamfara alls staðar í heiminum.
13.2 Ráðstafanir vegna loftslagsbreytinga verði að finna í landsáætlunum, stefnumótunum og skipulagi.
13.3 Menntun verði aukin til að vekja fólk til meðvitundar um hvernig mannauður og stofnanir geta haft áhrif og brugðist við loftslagsbreytingum, þar á meðal með snemmbúnum viðbúnaði og viðvörunum.
14.1 Eigi síðar en árið 2025 verði verulega dregið úr og komið í veg fyrir hvers kyns mengun sjávar, einkum frá starfsemi á landi, þ.m.t. rusli í sjó og mengun af
völdum næringarefna.
14.2 Eigi síðar en árið 2020 verði gengið vel um vistkerfi sjávar og stranda og þau vernduð á sjálfbæran hátt til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif, þar á meðal með því að grípa til aðgerða til að endurheimta og hlúa að vistkerfunum og njóta ábatans.
15.1 Eigi síðar en árið 2020 verði vistkerfi á landi og í ferskvatni vernduð og stuðlað að sjálfbærri nýtingu þeirra og endurheimt, einkum skóga, votlendis, fjalllendis og þurrkasvæða, í samræmi við skuldbindingar samkvæmt alþjóðasamningum.
15.2 Eigi síðar en árið 2020 hafi tekist að efla sjálfbærni skóga af öllu tagi, stöðva skógareyðingu, endurheimta hnignandi skóga og auka verulega nýskógrækt og endurrækta skóga um allan heim.
15.3 Eigi síðar en árið 2030 verði barist gegn eyðimerkurmyndun, leitast við að endurheimta hnignandi land og jarðveg, þ.m.t. land sem er raskað af
eyðimerkurmyndun, þurrkum og flóðum, og unnið að því að koma á jafnvægi milli hnignunar og endurheimtar lands í heiminum.
15.5 Gripið verði til brýnna og nauðsynlegra aðgerða til að sporna við hnignun náttúrulegra búsvæða og líffræðilegrar fjölbreytni. Eigi síðar en árið 2020 verði gripið til aðgerða til að vernda tegundir í bráðri hættu og koma í veg fyrir útrýmingu þeirra.
15.8 Gripið verði til ráðstafana eigi síðar en árið 2020 til að koma í veg fyrir aðflutning ágengra, framandi tegunda og dregið verulega úr áhrifum þeirra á vistkerfi á landi og í vatni. Tegundunum efst á lista verði útrýmt eða útbreiðslu þeirra eða fjölgun stýrt.