Frá og með mánudeginum 16. nóvember 2020 gátu Mosfellingar valið að nýta sér umhverfisvænan samgöngumáta innanbæjar þar sem fyrirtækið Oss rafrennur ehf. hefur fengið leyfi fyrir og hafið útleigu á rafhlaupahjólum.
Innan skamms mun fyrirtækið svo bjóða íbúum að leigja rafhjólum en bæði rafhlaupahjólin og rafhjólin verða á negldum dekkjum í vetur og því fyllasta öryggis gætt.
Til að byrja með verða allt að 30 hjól aðgengileg í Mosfellsbæ og ef eftirspurnin verður meiri verður þeim fjölgað. Leigan fer fram í gegnum smáforrit í snjallsíma þar sem að unnt er að sjá hvar næsta lausa rafhlaupahjól er staðsett. Smáforritið veitir einnig upplýsingar um stöðu á hleðslu rafhlöðu hvers hjóls og hversu mikill koltvísýringsútblástur sparast í hverri ferð ef sama vegalengd hefði verið farin á bifreið. Upphafsgjald fyrir hverja leigu er 100 kr. og síðan kostar hver mínúta 28 kr.
Upphafsstöðvar verða við íþróttamiðstöðvar og við miðbæjartorg en notendur geta skilið við hjólin þar sem þeim hentar þar sem smáforritið heldur utan um staðsetningu hjólanna. Það er þó mikilvægt að skilja við hjólin með ábyrgum hætti og þannig að þau séu ekki í vegi fyrir annarri umferð.
Innleiðing rafhlaupahjóla og rafmagnshjóla í Mosfellsbæ er í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
„Vistvænar samgöngur og áhersla á orkuskipti í samgöngum eru hluti af markmiðum umhverfisstefnu Mosfellsbæjar og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Við Mosfellingar tökum áhugasöm þátt í öllum skrefum, stórum sem smáum, sem styðja okkur við að draga úr kolefnisspori okkar því að margt smátt gerir eitt stórt. Ég vil því hvetja okkur Mosfellinga til þess að njóta þess að ferðast með umhverfisvænum og skemmtilegum hætti þar sem við gætum að öryggi annarra og okkar sjálfra um leið og við leggjum umhverfinu lið.“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.