Markmiði um bólusetningu 16 ára og eldri gegn COVID-19 sem lagt var upp með þegar bólusetningarátak hófst í lok desember 2020 hefur verið náð, en nærri 90% einstaklinga á þessum aldri hérlendis hafa verið bólusett.
Grunnbólusetning heldur áfram fyrir þá sem ekki hafa þegar þegið bólusetningu og þá sem flytjast til landsins óbólusettir eða ná aldri til að þiggja bólusetningu skv. markaðsleyfi og meðmælum sóttvarnalæknis. Framboð bóluefnis skv. afhendingaráætlunum m.v. samninga sem gerðir hafa verið fyrir hönd þjóðarinnar leyfir að hugað sé að því að efla svörun ákveðinna hópa með örvunarbólusetningu.
Fyrsti hópurinn sem sóttvarnalæknir mælir með að verði boðin örvunarbólusetning er einstaklingar án sögu um COVID-19/mótefni sem bólusettir voru með Janssen bóluefni. Þessum hópi verður boðinn einn skammtur af bóluefni frá Pfizer/BioNTech eða Moderna a.m.k. 8 vikum eftir Janssen bólusetningu. Rökin fyrir þessum meðmælum eru eftirfarandi:
- Vörn eftir einn skammt af Janssen bóluefni er svipuð og vörn eftir einn skammt af öðrum COVID-19 bóluefnum sem notuð hafa verið hér, um 66%1 á móti 74–80%2, 3, 4 vörn gegn smiti af upprunalega Wuhan afbrigði veirunnar,en Janssen er með markaðsleyfi sem eins skammts bóluefni og var því notað þannig.
- Vörn af tveimur skömmtum bóluefna frá Pfizer/BioNTech, Moderna eða Astra Zeneca er betri en vörnin af einum skammti.4, 5 Framleiðandi Janssen hefur prófað tveggja skammta áætlun í fasa 1–2 rannsóknum og var þá notað 8 vikna millibil. Annar skammtur örvaði mótefnasvar en rannsóknir á áhrifum hvað smitlíkur varðar vantar.6 Rannsóknir á lengra millibili við grunnbólusetningu með tveggja skammta bóluefnum gegn COVID-19 (bóluefnum Pfizer7 og Astra Zeneca2) hafa sýnt að svar er ekki síðra og jafnvel betra ef lengra líður frá fyrsta skammti að seinni skammti en upphaflegar áætlanir framleiðenda gerðu ráð fyrir.
- Önnur bóluefni sem byggja á sömu tækni nota yfirleitt ekki samskonar bóluefni fyrir örvunarskammt og fyrir fyrsta skammt (ebólabóluefni Janssen8 og COVID-19 bóluefnið Sputnik V9).
- Rannsóknir á örvun COVID-19 bóluefnis Astra Zeneca sem byggir á sambærilegri tækni og Janssen með mRNA bóluefnum eins og bóluefni Pfizer/BioNTech og Moderna hafa sýnt mjög góða örvun þegar horft er til mótefnamyndunar.10, 11
- Mjög litlar upplýsingar liggja fyrir um virkni Janssen bóluefnis gegn delta afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar sem nú hefur náð yfirhöndinni hér eins og víðar, en upplýsingar liggja fyrir um ágæta virkni bóluefnis Pfizer/BioNTech gegn þessu afbrigði.12
- Það sem af er þessari 4. bylgju hérlendis eru um 40% bólusettra sem hafa greinst með smit SARS-CoV-2 bólusettir með bóluefni Janssen. Það ber þó að túlka með varúð. Aldurshópur sá sem nú er mest áberandi hvað smit varðar, 18–49 ára, var að miklu leyti bólusettur með Janssen, um 36%, en 21% af öllum bólusettum fengu Janssen.
- Margir leik- og grunnskólakennarar voru bólusettir með bóluefni Janssen. Þar sem delta-afbrigðið virðist hafa náð mikilli samfélagslegri útbreiðslu er brýnt að efla varnir þessa starfsstétta áður en skólahald hefst, sérstaklega í ljósi þess að börn í leik- og grunnskólum hafa ekki verið bólusett í almennum bólusetningum ennþá.
Fyrirkomulag: Boðað verður miðlægt úr bólusetningakerfinu sem notað er fyrir COVID-19 bólusetningar út frá tímasetningu Janssen skammts. Framkvæmdin verður eins og áður á vegum heilsugæslunnar á hverjum stað.
- landlaeknir.isÖrvunarbólusetningar vegna COVID-19 fyrir einstaklinga sem bólusettir voru með Janssen bóluefni án sögu um fyrri COVID sýkingu
- landlaeknir.isBooster vaccinations for COVID-19 for individuals who have been vaccinated with the Janssen vaccine without a history of previous COVID infection
- landlaeknir.isSzczepienia uzupełniające przeciwko COVID-19 dla osób, które zostały zaszczepione szczepionką firmy Janssen bez wcześniejszego zakażenia COVID
Tengt efni
Covid-19 rýni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu
COVID-19 faraldrinum er ekki lokið en, þó lítið sé um stórar aðgerðir hér á Íslandi.
Staða Covid-19 faraldurs 10. mars 2022
Gríðarlega mikil útbreiðsla Covid-19.
Covid-19: Aflétting allra takmarkana innanlands og á landamærum