Nálgun jólanna verður fagnað með orgelslætti í Lágafellskirkju nú í fimmta skipti.
Organisti og skipuleggjandi, Douglas Brotchie, innleiddi þessa hefð þegar hann flutti að Eik í Mosfellsbæ fyrir nokkrum árum, og hafði þá áhuga á að efla og styrkja tónleikahald í sinni nýju heimabyggð.
Orgeljól verða með hefðbundnu hætti þetta árið enda organistinn og forsvarsmaður mjög vanafastur maður. Leikin verða nokkur fjölbreytt og litrík orgelstykki sem Bach, meistari allra organista, samdi nákvæmlega fyrir þennan tíma árs. Einnig verður spiluð – í fyrsta skipti hér á landi, að því að best er vitað – svíta eftir Domenico Zipoli. Zipoli þessi var mjög áhugaverður karakter, og í upphafi lífshlaups síns, stefndi hann að því að verða tónskáld. Seinna var hann vígður prestur í Jesuita-reglunni og fór á vegum reglunnar til Suður Ameríku, þar sem hann vann kristniboðsstarf, og vildi snúa frumbyggjum landsins til kristinnar trúar með aðstoðarmætti tónlistarinnar.
Douglasi til aðstoðar, halds og trausts verður Sigrún Jónsdóttir söngkona. Hún mun syngja nokkra sálma sem tilheyra aðventu, til að hjálpa hlustendum að kynnast sálmalögunum og þannig undirbúa sig til að njóta útfærslu þessara sömu sálma frá höndum meistara Bachs. Þar að auki flytur hún nokkur önnur lög sem hæfa stað og stund.
Orgeljól í Lágafellskirkju fara fram í þetta skipti fimmtudag 17. desember kl. 20. Aðgangur að Orgeljól 2009 eru ókeypis enda tónleikahald styrkt af menningarmálanefnd Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Ljósin tendruð á jólatrénu á Miðbæjartorgi 2. desember 2023
Tendrun ljósanna á jólatrénu á Miðbæjartorginu hefur um árabil markað upphaf jólahalds í bænum.
Sköpum rými
Opinn fundur menningar- og lýðræðisnefndar um rými fyrir sköpun og miðlun menningar í Mosfellsbæ verður haldinn í Hlégarði þriðjudaginn 28. nóvember.
Grindvíkingum boðið á jólatónleika í Hlégarði
Tónlistarkonan Greta Salóme í samstarfi við Mosfellsbæ ætla að bjóða Grindvíkingum á jólatónleika í félagsheimili Mosfellinga, Hlégarði, sunnudaginn 17. desember kl. 17:00.