Nú er búið að opna fyrir umsóknir um matjurtagarða í Mosfellsbæ.
Garðarnir verða aðallega staðsettir í Skarhólamýri, á sama stað og garðar hafa verið til útleigu undanfarin ár. Stærð garða og leiguverð er óbreytt frá sl. ári eða 3.000 kr. fyrir leigu á 100 fm garði og 1.500 kr. fyrir 50 fm garð.
Þjónustuver Mosfellsbæjar, Þverholti 2, annast eins og áður móttöku umsókna og tekur við greiðslum.
Þeir sem vilja halda sínum garði frá því í fyrra eru beðnir um að staðfesta leigu á þeim fyrir 1. maí n.k. Eftir þann tíma verða allir garðar leigðir út skv. biðlista.
Gert er ráð fyrir að garðar verði afhentir um 20. maí en það er háð því að frost sé farið úr jörðu og búið að plægja garðana.
Ef ásókn verður meiri en svæðið í Skarhólamýri leyfir, þá er mögulegt að úthluta matjurtagörðum í tengslum við skólagarða Mosfellsbæjar, austan Varmárskóla.
Einnig hefur náðst samkomulag við Reykjavíkurborg um matjurtagarða í Skammadal en Reykjavíkurborg hefur haft svæðið til umráða undanfarin ár. Ákveðnir matjurtagarðar í Skammadal hafa nú verið fráteknir fyrir íbúa Mosfellsbæjar og sér Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar um útleiguna. Áhugasamir geta sett sig í samband við Sigríði G. Ólafsdóttur hjá Umhverfis- og samgöngsviði Reykjavíkurborgar í síma 411-1111 og látið skrá sig á lista með ósk um garð. Taka þarf fram að viðkomandi sé íbúi í Mosfellsbæ.