Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun ráðningu Ólafar Kristínar Sivertsen í starf sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.
Staða sviðsstjóra var auglýst þann 25. maí með umsóknarfresti til 10. júní. 35 umsækjendur sóttu um stöðuna en tveir drógu umsókn sína til baka. Það var fyrirtækið Intellecta sem sá um framkvæmd ráðningaferilsins í samvinnu við Mosfellsbæ.
Ólöf Kristín er með B.Ed. gráðu, kennsluréttindi og leyfisbréf í leik-, grunn- og framhaldsskóla frá Kennaraháskóla Íslands, MPH gráðu í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Reykjavík og diplóma á meistarastigi í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands. Auk þess hefur hún lokið grunn- og framhaldsnámi í markþjálfun.
Ólöf býr yfir 20 ára, farsælum ferli á vettvangi fræðslumála og hefur hún í störfum sínum öðlast víðtæka þekkingu á skóla- og frístundaumhverfi sveitarfélaga. Undanfarin fjögur ár hefur Ólöf starfað sem verkefnastjóri mats og lýðheilsu á fagsviði grunnskóla hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, en þar hefur hún m.a. unnið að eflingu innra mats og gæðastarfs grunnskóla, veitt ráðgjöf til skólastjórnenda í mannauðsmálum og innleitt heilsueflandi skólastarf svo dæmi séu tekin. Þar áður starfaði Ólöf sem framkvæmda- og fagstjóri hjá Skólum ehf. í sex ár. Hún hefur einnig starfað sem kennari í Hagaskóla í mörg ár, deildarstjóri á ungbarnaleikskólanum Ársól, í mannauðsdeild Marel ehf. og sem skrifstofustjóri við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík.
Ólöf býr í Mosfellsbæ, hefur mikinn áhuga á útivist og gegnir um þessar mundir starfi forseta ferðafélags Íslands. Þá hefur hún tekið virkan þátt í foreldrastarfi í Lágafellsskóla og verkefninu Heilsueflandi Mosfellsbær um árabil.
Tengt efni
Málstjóri farsældar hjá Mosfellsbæ
Leiðtogi upplýsingatækni hjá Mosfellsbæ
Sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar
Mosfellsbær leitar að framsæknum og drífandi leiðtoga í starf sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.