Menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar hefur samþykkt að leggja áhersla á þátttöku barna í verkefninu Okkar Mosó árið 2025 og fær verkefnið því nafnið Krakka Mosó að þessu sinni. Framkvæmdin á verkefninu í ár verður í samvinnu við skóla Mosfellsbæjar og ungmennaráð.
Krakka Mosó 2025 er lýðræðis- og samráðsverkefni krakka og Mosó um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til framkvæmda eða verkefna á þrem opnum svæðum í bænum. Svæðin eru Ævintýragarðurinn, Stekkjarflöt og svæði við Rituhöfða.
Hvatt verður til þess að hugmyndir tengist því að gera Mosfellsbæ betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu krakka og hafa jákvæð áhrif á umhverfi krakka og annarra íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja- og skemmtunar.
Með verkefninu Krakka Mosó er lögð sérstök áhersla á að virkja nemendur á mið- og unglingastigi grunnskóla bæjarins í aðkomu að mótun framtíðar bæjarins.
Markmiðið er að efla rödd barna og unglinga og þátttöku þeirra þegar kemur að lýðræði og samfélagsmálum. Það er í samræmi við áherslur í verkefninu Barnvænt sveitarfélag, sem Mosfellsbær vinnur að innleiðingu á í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Verkefninu Barnvænu sveitarfélagi er einmitt ætlað að bæta aðstæður barna og tryggja að ávallt sé tekið tillit til réttinda þeirra og unnið samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allri ákvarðanatöku, stefnu og vinnu innan sveitarfélagsins. Verkefnið Krakka Mosó endurspeglar þær áherslur sem unnið er eftir við að gera Mosfellsbæ að barnvænu sveitarfélagi.
Framkvæmd verkefnisins
Krakka Mosó 2025 fór af stað með kynningum fyrir nemendur í skólum 22. – 23. apríl 2025, þar sem fræðsla var veitt um lýðræði og þátttöku.
Eftir það fer fram hugmyndasöfnun í bekkjum skólanna dagana 28. – 29. apríl, þar sem nemendur fá tækifæri til að leggja fram þær hugmyndir sem þeir telja mikilvægar fyrir þrjú opin svæði í bænum. Hugmyndirnar geta tengst því að gera svæðin betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja- og skemmtunar.
Eftir úrvinnslu hugmynda, sem fer fram 2. – 13. maí, verður farið í kynningu meðal nemenda á þeim tillögum sem fara til atkvæðagreiðslu. Kjördagur verður 20. maí 2025, þar sem nemendur fá tækifæri til að greiða atkvæði um þær hugmyndir sem verða framkvæmdar. Atkvæðagreiðslan fer fram á vandaðan hátt, þar sem tryggt verður að allir geti greitt atkvæði í leynilegri kosningu, og fulltrúar nemenda taka þátt í talningu atkvæða.
Fjármögnun og útfærsla
Samkvæmt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2025 verður 20 milljónum króna úthlutað til að framkvæma þau verkefni sem krakkar og ungmenni í Mosfellsbæ leggja til eftir atkvæðagreiðslu í verkefninu Krakka Mosó.
Samvinna við skóla og ungmennaráð
Verkefnið verður útfært í nánu samstarfi við þá fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig – Varmárskóla, Kvíslarskóla, Lágafellsskóla og Helgafellsskóla.
Lýðræðisleg vinnubrögð í forgrunni
Markmið Krakka Mosó 2025 er ekki einungis að efla þátttöku barna og ungmenna, heldur einnig að gefa börnum tækifæri til að taka virkan þátt í ákvarðanatökuferlum sem varða bæjarfélagið þeirra og að þjálfa þau í lýðræðislegum vinnubrögðum. Áhersla verður lögð á að nemendur nýti eigin aðferðir til að leggja fram tillögur t.d. myndir, teikningar og fleira.