Stafræn verkefni voru unnin af krafti árið 2023 þegar meðal annars 11 ný stafræn verkefni voru innleidd.
Má þar nefna stafrænt vinnuafl sem notað er til að einfalda og sjálfvirknivæða ferla, nýtt sameiginlegt umsóknarkerfi fyrir leikskóla og frístundarmál, stafræna umsókn um fjárhagsaðstoð með sjálfvirkri gagnaöflun, móttökukerfi í þjónustuveri, viðtalsbókunarkerfi sem sendir gestum sms skilaboð auk kerfis fyrir rafrænar samþykktir og innsiglanir á teikningum hjá embætti byggingarfulltrúa sem sparar viðskiptavinum skref, einfaldar úrvinnslu og tryggir öruggar undirskriftir með rafrænum skilríkjum. Verkefnunum er ætlað að bæta þjónustu með því að sem flest erindi séu leyst fljótt og örugglega með rafrænum lausnum eða aðstoð þjónustuvers sem leysi þau í fyrstu snertingu.
Nýtt stafrænt ár hófst svo af krafti hjá Mosfellsbæ þegar bæjarráð samþykkti endurskoðun á upplýsingatæknimálum bæjarins sem felst í úttekt á þjónustustigi, kostnaði, öryggismálum, persónuvernd og innkaupum tengt upplýsingamálum. Tillagan að úttektinni byggir á þeim úrbótatillögum sem lagðar voru til í stjórnsýslu- og rekstrarúttekt Strategíu og gefin var út í maí 2023. Lagt er til að úttektin verði framkvæmd af ytri sérfræðingum í upplýsingatækni og hönnun notendavænnar þjónustu og er markmiðið með því að tryggja faglega nálgun og hlutlægni í úttektinni.
Mosfellsbær leggur ríka áherslu á að vera í fremstu röð í stafrænni þróun og nýtingu á upplýsingatækni í þágu bæjarbúa og starfsfólks og mun áfram setja kraft í verkefni tengd stafrænni vegferð.
„Við finnum að viðskiptavinir kunna að meta bætta þjónustu og tökum því fagnandi að hafa nú meira rými fyrir sérhæfð verkefni sem styðja enn frekar við betri þjónustu og betri upplifun okkar viðskiptavina.“
– Gabriela Líf Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Tengt efni
Þrjár nýjar stafrænar lausnir á vef Mosfellsbæjar
Stafræn umbreyting hefur verið sett í forgang hjá Mosfellsbæ og nú þegar hafa alls 14 stafrænar lausnir verið innleiddar.
Stafræn umsókn um fjárhagsaðstoð með sjálfvirkri gagnaöflun
Síðastliðið vor innleiddi Mosfellsbær stafrænt umsóknarferli um fjárhagsaðstoð í gegnum kerfi sem heitir Veita.
Allt á einum stað
Mosfellsbær hefur unnið að því að einfalda umsóknarferli og innritun fyrir vetrar- og sumarfrístund, mötuneyti grunnskóla og vinnuskólann.