Í dag, 1. september 2023, tekur nýtt skipurit gildi hjá Mosfellsbæ.
Bæjarstjórn samþykkti skipulagsbreytingarnar í kjölfar stjórnsýslu- og rekstrarúttektar Strategíu sem var framkvæmd síðastliðin vetur.
Leiðarljós við mótun nýs skipurits Mosfellsbæjar var að horfa á verkefnin út frá áherslum sveitarfélagsins og efla þjónustu við bæjarbúa í stækkandi sveitarfélagi. Með nýju skipulagi gefst aukið svigrúm til að skerpa á áherslum varðandi stjórnarhætti, efla áhættu- og árangursmat, samhæfa verkefni á milli sviða og deilda, fylgja eftir umbótum og nýta betur þá tækniþróun sem hefur orðið í samfélaginu.
Nýtt svið, menningar-, íþrótta- og lýðheilsusvið verður sett á laggirnar auk skrifstofu umbóta og þróunar en þjónustu og samskiptadeild verður lögð niður.
Á menningar-, íþrótta og lýðheilsusviði verða málefni bókasafnsins, Hlégarðs, héraðsskjalasafns, íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá og íþróttamiðstöðvarinnar Lágafell, samningar við íþróttafélög og lýðheilsuverkefni. Á skrifstofu umbóta og þróunar verða verkefni tengd stafrænni umbreytingu, upplýsingatækni, upplýsingamiðlun, tölfræði og greining auk innleiðingar á helstu umbótatillögum sem komu fram í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Strategíu.
Sérstök áhersla er lögð á farsæld barna í þessum skipulagsbreytingum og verður þétt samstarf milli sviði í því mikilvæga verkefni.
Á myndinni má sjá frá vinstri; Þóra Hjaltested bæjarlögmaður, Arnar Jónsson sviðsstjóri menningar-, íþrótta- og lýðheilsumála, Jóhanna B. Hansen sviðsstjóri umhverfissviðs, Pétur J. Lockton sviðsstjóri fjármála- og áhættusviðs, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Ólafía D. Ásgeirsdóttir sem hefur störf 1. október sem skrifstofustjóri umbóta og þróunar, Gunnhildur Sæmundsdóttir sviðsstjóri fræðslu og frístundasviðs, Kristján Þór Magnússon sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs og Sigurbjörg Fjölnisdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs.
Ljósmyndari: Thule Photo