Eitt aðaleinkenni skólastarfsins í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ er að kennslustundirnar eru að mörgu leyti nýstárlegar þar sem nemendur læra námsefnið í gegnum verkefni sem þeir vinna með stuðningi kennara.
„Hugmyndafræði og kennsluhættir skólans einkennast þannig af því að nemendur eru virkir þátttakendur í eigin námi, öðlast sjálfstæði og stjórna námshraða sínum með góðum stuðningi kennara og námsráðgjafa. Notaðar eru fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og námsmat sem er stöðugt í gangi og miðast við hugmyndir um leiðsagnarmat,“ segir Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólastjóri FMOS.
Upplýsingatæknin er notuð til að auka fjölbreytni í skólastarfinu, kennslukerfi á netinu er notað til að koma upplýsingum, áætlunum, námsefni og fyrirmælum til nemenda, auk þess sem verkefnaskil fara að mestu fram á kennslukerfinu. Hvers kyns tæki, tölvur, símar og spjaldtölvur eru notuð á margvíslegan hátt í verkefnavinnunni.
Ekki sérstakur prófatími
Ein sérstaða FMOS er að ekki er sérstakur prófatími því að leiðsagnarmatið fer fram alla önnina. Tvær síðustu vikurnar er kennslan brotin upp með verkefnadögum þar sem nemendur vinna lokaverkefni í lengri lotum en venjulega.
FMOS leggur áherslu á að vera í góðum tengslum við umhverfi sitt, bæði hvað varðar listir og menningu, íþróttir og lýðheilsu og annað það sem einkennir mannlíf í Mosfellsbæ. Sigrún Theodóra Steinþórsdóttir listgreinakennari við skólann er með kemmtilega nálgun á kennsluna. „Ég kenni áfanga eins og Hönnun úr náttúruefnum, Hönnun og blönduð tækni og Hönnun úr textílefnum. Þessir áfangar bjóða upp á að nemendur spreyti sig á ólíkri tækni og aðferðum hönnunar í efni eins og áttúruefni, gifs, pappír, steypu, leir, gler, vír og mismunandi textílefni. Ég vil ýta undir félagsþroska nemenda minna með því að leyfa þeim að kynnast innbyrðis á sinn hátt og hef tímana mjög frjálslega og afslappaða. Þannig myndast skemmtilegt andrúmsloft hjá nemendum sem virkjar sköpunarkraft þeirra og áhuga á fagurfræði,“ segir Sigrún Theodóra.
Nemendur ánægðir með kennsluna
Í Hönnun úr náttúruefnum kenni ég nemendum mínum m.a. að tálga úr trjátegundum eins og birki, ösp og víði. Við notumst við fallin tré hérna í Mosfellsbæ og höfum fengið gefins efnivið frá fólki sem þarf að losa sig við tré úr görðunum sínum. Eins notum við önnur náttúruefni eins og steina, laufblöð, kuðunga og skeljar og í raun allt sem er í boði hérna í umhverfi okkar. Við höfum farið í heimsókn í Ásgarð í Álafosskvosinni og kynnst starfseminni þar, því þar er einmitt tálgunin notuð mikið svo úr verða fallegir hlutir. Í þessum áföngum er líka farið í útieldhús með hlóðum sem Varmárskóli hefur verið svo almennilegur að lána okkur og tálgaðir grillpinnar sem notaðir eru til að grilla pylsur og baka brauð yfir opnum eldi. Þetta vekur alltaf jafn mikla lukku,“ segir Sigrún Theódóra. „Í áfanganum Hönnun og blönduð tækni vinnum við m.a. með pappír, gifs, leir, steypu, járn, flísar og fleira spennandi.
Í þessum áfanga er vinsælt að gera grímur, hatta, skálar, figúrur og fleira og í áfanganum Hönnun úr textílefnum eru miðaðir við verkefni og vinnu úr mismunandi textílefnum eins og óróar, þæfðar nælur og skart, tuskudýragerð, þrykking á boli, hnýtt armbönd og margt fleira í svipuðum dúr. Þessi nálgun að námsefninu hefur reynst vel og nemendur ánægðir með kennsluna,“ segir Sigrún Theodóra að lokum.
Tengt efni
FMOS tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Fimm skólar eða aðrar menntastofnanir eru tilnefndar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.
Einstakt samstarf í baráttunni gegn einelti
Hátt í 200 ungmenni úr Varmárskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ unnu saman í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti, á vel heppnuðu nemendaþingi um einelti.
Svefn er gulls ígildi - Fyrirlestur 11. október kl. 19:30
FMOS og Félagsmiðstöðin Ból í samvinnu við ÍSÍ #beactive bjóða foreldrum og öllum sem vilja á fyrirlestur með Dr. Erlu Björnsdóttur, stofnanda Betri svefns.