Hátt í 200 ungmenni úr Varmárskóla og Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ unnu saman í dag, á alþjóðlegum baráttudegi gegn einelti, á vel heppnuðu nemendaþingi um einelti.
Nemendaþingið er liður í að vekja bæði nemendur og samfélagið allt til vitundar um einelti, orsakir þess og áhrif, og hvernig má koma í veg fyrir það. Einnig eru skýr menntunarleg markmið með þinginu.
Það voru nemendur í 5. og 6. bekk Varmárskóla sem báru hitann og þungann af umræðum dagins, undir styrkri stjórn samræðustjóra sem eru nemendur í uppeldis- og félagsfræðiáföngum í FMos.
Þetta er sennilega í fyrsta sinn í íslenskri skólasögu sem nemendur úr yngri hluta grunnskólans eiga í viðlíka samstarfi við framhaldsskólanemendur um svo mikilvægt samfélagslegt málefni. ,,Það var frábært að fylgjast með krökkunum ræða saman um þetta mikilvæga málefni, þeir voru málefnalegir og leituðu lausna. Við fullorðna fólkið getum horft bjartsýn til framtíðarinnar í boði þessa unga fólks.”
Þingið er þó ekki eingöngu mikilvægt innlegg í samfélagsumræðu síðustu vikna, en einelti og áhrif þess hafa farið hátt í umfjöllun fjölmiðla. Einelti er samfélagsmein sem fyrirfinnst á allt of mörgum stöðum. Þegar hópar fólks koma saman til að ræða leiðir til að vinna gegn einelti leiðir samræðan til aukins skilnings og verður þannig breytingaafl í sjálfu sér.
Menntunarlega markmið þingsins eru skýr fyrir nemendur beggja skóla. Fyrst má nefna það að þjálfa nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum. Á þinginu ræddu nemendur mikilvægt samfélagsleg málefni og skipulögðu í sameiningu aðgerðir til umbóta. Með þátttöku í samræðum þar sem þess er gætt að allir geti látið skoðun sína í ljós og að niðurstaðan verði hagstæð fyrir alla þátttakendur, fá nemendur tilfinningu fyrir því að þeir geti haft mótandi áhrif á eigin framtíð og verða þannig skapandi gerendur í eigin umhverfi. Samræðustjórar taka aukna ábyrgð og efla þannig vitund sína um möguleika til áhrifa.
„Við í Varmárskóla og F-Mos höfum trú á því að þeir sem nú eru nemendur hafi mikla möguleika á að breyta framtíðinni. Ein manneskja sem hefur ákveðið að hafa jákvæð áhrif í umhverfi sínu hefur þar með áhrif á svo ótal marga og getur orðið hreyfiafl fyrir stórtækar breytingar. Hvað þá ef hátt í 200 ungar manneskjur fara af stað út í heiminn með slíkt hugarfar. Það er okkar markmið, því við vitum að þeir sem eru ungt fólk í dag, er fólkið sem mun stýra framtíðinni. Ef við getum kennt þeim leiðir til að taka góðar ákvarðanir fyrir samfélagið höfum við lagt okkar af mörkum til framfara.”
Tengt efni
Fræðsla um starfsemi bæjarins fyrir 5. bekk Varmárskóla
Fjölbreytt og skemmtilegt starf í Tröllabæ
FMOS tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna 2023
Fimm skólar eða aðrar menntastofnanir eru tilnefndar til Íslensku menntaverðlaunanna 2023.