Gjörbylt aðstaða fyrir bardagaíþróttir og fimleika auk félagsaðstöðu UMFA með nýjum 1200 fm viðbyggingu og 300 fm millilofti sem verður tekin í notkun um næstu áramót.
Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir við 1200 fm viðbyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá sem hýsa mun starfsemi fimleika- og bardagaíþróttadeilda Aftureldingar sem og að skapa möguleika á aukinni félagsaðstöðu félagsins. Heildarkostnaður við þessa framkvæmd er um 135 m.kr.
Um er að ræða stálgrindarhús sem byggt verður austan við eldri íþróttasalinn og innangengt verður milli salanna. „Það er ljóst að þessi viðbót á húsnæðiskosti að Varmá verður mikil lyftistöng fyrir Aftureldingu, ekki aðeins fyrir fimleika og bardagadeildirnar heldur líka aðrar deildir félagsins, því við þetta skapast meira rými í öðrum íþróttasölum fyrir þær íþróttagreinar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. Margar deildir munu njóta ávinnings af nýja húsinu Það er ljóst að flestar ef ekki allar deildir félagsins munu njóta ávinnings af þessu nýja íþróttahúsi og fögnum við því mjög að það sé að verða að veruleika. Jafnframt hefur Mosfellsbær samþykkt að hefja vinnu með Aftureldingu um greiningu á framtíðarþörf íþróttamannvirkja félagins,“ segir Sævar Kristinsson formaður Aftureldingar.
Bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að ráðast í framkvæmdir við 1200 fm viðbyggingu við Íþróttamiðstöðina að Varmá sem hýsa mun starfsemi fimleikadeildar og bardagaíþróttadeildir Aftureldingar sem og að skapa möguleika á aukinni félagsaðstöðu.
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra er forsaga þessa máls sú að Afturelding ritaði bænum bréf í júlí á síðasta ári þar sem óskað var eftir því að bærinn gerði félaginu kleift að leigja húsnæði sem nýst gæti fimleikadeild, taikwondodeild og karatedeild og um leið leysa brýnasta húsnæðisvanda félagsins. „Það er búið að fara yfir kosti í þessu sambandi síðan og eftir vandlega yfirferð var það niðurstaðan að hagkvæmast væri að bæta við íþróttasal við Íþróttamiðstöðina að Varmá,“ segir Haraldur. „Það er vilji bæjarstjórnarinnar að koma til móts við þessa þörf Aftureldingar og hér er um hagkvæma framkvæmd að ræða sem rúmast innan þess fjárhagslega svigrúms sem bærinn hefur til framkvæmda.“
Vonast er til að hægt verði að taka þennan nýja sal í notkun um næstu áramót langþráð aðstaða fyrir félagsstarfið. „Við flutning fimleika- og bardagadeilda úr núverandi aðstöðu mun verða hægt að flytja til ýmsar deildir og gera þeim kleift að rækta sitt hlutverk og starfsemi á mun betri hátt en áður. Handboltinn mun til að mynda færast í annan sal sem uppfyllir kröfur HSÍ sem salurinn í dag gerir ekki. Blakið fær aukið rými í húsinu ásamt því að bæði yngri deildir knattspyrnunnar og eins frjálsar ættu að geta fengið innitíma í húsinu yfir veturinn. Síðast en ekki síst mun Afturelding fá langþráða aðstöðu fyrir félagsstarfið og eins aukið rými fyrir skrifstofu félagsins,“ segir Sævar Kristinsson formaður Aftureldingar.
Tengt efni
Vilt þú hafa áhrif á uppbyggingu að Varmá?
Mosfellsbær og Afturelding vinna að þarfagreiningu fyrir nýja þjónustu- og aðkomubyggingu við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Starfsemi Eldingar að Varmá lýkur 30. júní næstkomandi
Þann 30. júní lýkur samstarfi Mosfellsbæjar og Eldingar um aðstöðu til almennrar líkamsræktar og styrktarþjálfunar í Íþróttamiðstöðinni að Varmá.
Fjölnota íþróttahúsið að Varmá heitir Fellið
Nýtt fjölnota íþróttahús að Varmá hefur verið tekið í notkun.