Þann 1. janúar 2015 taka gildi nýjar reglur um ferðaþjónustu fatlaðs fólks.
- Strætó tekur við rekstri akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra á höfuðborgarsvæðinu, utan Kópavogs
- Markmið Strætó er að veita sveigjanlegri og öruggari þjónustu
- Samstarf við hagsmunaaðila er lykilatriði við innleiðingu breytinganna
Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, utan Kópavogs, hafa gert með sér samkomulag um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks og aldraðra. Á grundvelli þess var Strætó falið að reka þjónustuna frá og með áramótunum en Strætó hefur rekið hana í Reykjavík frá árinu 2001.
Aukið öryggi og sveigjanleiki
Markmið Strætó er að tryggja notendum akstursþjónustunnar bæði sveigjanlegri og öruggari þjónustu en þeir hafa áður fengið. Aukinn sveigjanleiki felst meðal annars í því að nú geta notendur pantað ferðir með tveggja klukkustunda fyrirvara í stað eins sólarhrings áður. Þjónustuverið verður opið mun lengur en áður, eða meðan ökutæki fyrirtækisins eru í akstri. Aukið öryggi notenda verður m.a. tryggt með endurnýjun ökutækja akstursþjónustunnar auk þess sem á þeim verða gerðar reglubundnar gæða- og öryggisúttektir.
Gott samstarf lykilatriði
Akstursþjónustuna er umfangsmikil og mikilvæg þjónusta sem snertir marga og því er góð samvinna og samráð við hagsmunasamtök notenda afar mikilvægt til að tryggja farsæla framkvæmd þjónustunnar. Skipaður hefur verið samráðshópur með fulltrúum frá sveitarfélögunum, Strætó, notendum og þeim sem annast aksturinn. Hlutverk hópsins er að fylgjast með framkvæmdinni og koma með ábendingar um það sem betur má fara. Strætó hvetur einnig notendur til þess að koma á framfæri athugasemdum sínum og ábendingum með símtali í þjónustuver, 540-2700, tölvupósti, thjonustuver@straeto.is, eða í gegnum vef Strætó, straeto.is. Allar ábendingar og athugasemdir eru skráðar og unnið úr þeim eins fljótt og kostur er.
Ábyrgð á þjónustunni
Samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna er ábyrgð á akstursþjónustunni tvískipt: Félagsþjónusta hvers sveitarfélags ákvarðar hverjum er heimilt að nota þjónustuna, ákveður fjölda ferða á hvern notenda og hvaða þjónustu notandinn á rétt á. Ábyrgð Strætó felst í að framkvæmd akstursþjónustunnar sé í samræmi við ákvarðanir sveitarfélaganna.
Nánari upplýsingar
Upplýsingabæklingur Strætó um akstursþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu er aðgengilegur á Þjónustumiðstöðum Reykjavíkurborgar, þjónustuverum Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness auk þess sem hann er að finna á vef Strætó.
Tengt efni
Ríkið og sex sveitarfélög gera samkomulag um uppfærðan samgöngusáttmála
Hopp-hjólin eru komin
Hleðslustöðvarnar átta komnar í notkun
Í sumar var boðin út uppsetning, rekstur og fjölgun hleðslustöðva í Mosfellsbæ.