Þrátt fyrir að lítill snjór sé í fjöllunum eins og er er búið að opna í Bláfjöllum.
Þá hittist það vel á að nýja stólalyftan, Drottning, sé tilbúin til notkunar og komin í gagnið. Önnur ný stólalyfta, Gosi, er þá jafnframt tilbúin til notkunar og mun opna um leið og skíðafæri leyfir.
Uppsetning lyftanna er liður í stóru uppbyggingarverkefni á skíðasvæðunum, en vinna vegna þess hefur staðið yfir á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) allt frá árinu 2018, en þá var undirritað samkomulag Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum á svæðinu. Markmið þessara framkvæmda er að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir alla hópa skíðaiðkenda. Auk Gosa og Drottningar er m.a. gert ráð fyrir snjóframleiðslu á skíðasvæðunum og Skálafelli auk nýrrar lyftu í Skálafelli. Þá hefur aðstaða á gönguskíðasvæði einnig verið bætt, t.a.m. með uppsetningu nýrrar salernisaðstöðu, kaupum á troðara, snjógirðingum og bættri lýsingu.
Í þessum fyrsta áfanga verkefnisins var samið við Doppelmayr skíðalyftur ehf., sem var lægstbjóðandi í samkeppnisútboði, um kaup og uppsetningu á lyftunum Gosa og Drottningu. Upphaflega var ekki gert ráð fyrir að Drottning yrði tilbúin fyrr en haustið 2023, en framkvæmdir gengu mun betur en vonir stóðu til og verður því hægt að nýta hana á þessu skíðatímabili.
Áætlaður framkvæmdakostnaður við nýju lyfturnar er 2,4 milljarðar kr. og áætlaður heildarframkvæmdakostnaður allra framkvæmda, þ.m.t. í Skálafelli og vegna bættrar aðstöðu fyrir skíðagöngufólk, er um 5,3 milljarðar kr. til ársins 2026.
Formleg opnun Gosa og Drottningar mun svo fara fram við fyrsta tækifæri á nýju ári.