Á fundi bæjarráðs í dag þann 20. júlí var samþykkt ráðning skrifstofustjóra umbóta og þróunar og sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfis. Þá var samþykkt ráðning leikskólastjóra á leikskólanum Hlíð. Að auki voru kynntar ráðningar fimm nýrra stjórnenda á velferðarsviði, umhverfissviði og fræðslu- og frístundasviði.
Staða skrifstofustjóra umbóta og þróunar er ný og liður í skipulagsbreytingum sem voru samþykktar í bæjarráði 17. maí síðastliðinn. Það á einnig við um stöðu leiðtoga í málaflokki fatlaðs fólks á velferðarsviði og tengist meðal annars yfirfærslu á þjónustu við íbúa Skálatúns til Mosfellsbæjar en staða framkvæmdastjóra Skálatúns er lögð niður. Þá er staða leiðtoga umhverfis og framkvæmda með aukinni ábyrgð þar sem verkefni umhverfisstjóra og stjórnanda þjónustustöðvar hafa verið sameinuð. Ráðningar í aðrar stöður koma til vegna starfsloka stjórnenda.
Ólafía Dögg Ásgeirsdóttir var ráðin skrifstofustjóri umbóta og þróunar.
Ólafía er með B.A. í stjórnmálafræði og MPA í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Þá hefur Ólafía APME í verkefnastjórnun frá Opna Háskólanum með D vottun.
Ólafía starfar sem teymisstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún stýrir teymi sem ber ábyrgð á tölfræðigreiningum, gerð og þróun árangursmælikvarða og þróun mælaborða. Ólafía hefur einnig starfað sem framkvæmdastjóri lögfræðistofunnar Atlantik Legal Services auk þess að hafa margra ára reynslu sem verkefnisstjóri, meðal annars í samevrópsku verkefni hjá Reykjavíkurborg og hjá Efta.
Ólafía er 45 ára og er búsett í Mosfellsbæ.
Kristján Þór Magnússon var ráðinn sviðsstjóri mannauðs og starfumhverfis.
Kristján Þór er með B.A. í líffræði frá Bates College í Bandaríkjunum, MPH í faraldsfræði frá Boston University í Bandaríkjunum og Ph.D. í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Auk þess hefur hann diplómu í leiðtogafræðum frá LMI Waco í Texas.
Kristján hefur víðtæka stjórnunarreynslu sem sveitarstjóri í Norðurþingi í átta ár og öðlaðist þar umfangsamikla reynslu af mannauðsmálum. Þá hefur hann stýrt heilsueflandi verkefnum hjá Landlæknisembættinu og starfað sem forseti heilbrigðisviðskipta og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri.
Kristján Þór er 44 ára og er í starfi aðstoðarrektors hjá Háskólanum á Akureyri.
Steinunn Bára Ægisdóttir var ráðin leikskólastjóri í Hlíð.
Steinunn Bára er vel kunnug í Hlíð en hún hefur starfað þar sem leikskólakennari og deildarstjóri fá árinu 2016. Steinunn Bára er með BA gráðu frá HÍ í uppeldis- og menntunarfræðum, með meistaragráðu frá HÍ í menntunarfræðum leikskóla og með Diplómanám frá HÍ í Menntastjórnun og matsfræðum.
Steinunn er 40 ára og býr í Mosfellsbæ.
Gestur Guðrúnarson er nýr leiðtogi málefna fatlaðs fólks á Velferðarsviði.
Gestur er með B.A. í þroskaþjálfafræðum frá Háskóla Íslands og er að ljúka meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Gestur hefur starfað í málaflokki fatlaðs fólks í rúma tvo áratugi, lengst af hjá Akureyrarbæ og verið stjórnandi í 15 ár. Gestur hefur innleitt breytingar í samræmi við hugmyndafræði um þjónandi leiðsögn á þeim heimilum sem hann hefur stýrt og tekið þátt í innleiðingu á stafrænum lausnum og velferðartækni.
Gestur er 46 ára og býr í Mosfellsbæ og er í dag forstöðumaður íbúakjarnans Þverholts á velferðarsviði Mosfellsbæjar.
Dóra Lind Pálmarsdóttir hefur verið ráðin leiðtogi umhverfis og framkvæmda á umhverfissviði og Lárus Elíasson leiðtogi Mosfellsveitna.
Dóra Lind er með B.Sc. í byggingatæknifræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í umhverfis- og auðlindafræði frá sama skóla. Auk þess hefur hún lokið diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og PMD stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík. Dóra starfar í dag sem deildarstjóri hjá Framkvæmdasýslu – Ríkiseignum. Áður starfaði Dóra í nokkur ár sem leiðtogi framkvæmda og reksturs hjá Veitum og sem útibússtjóri Verkís í Stykkishólmi.
Dóra Lind er 38 ára gömul og býr í Mosfellsbæ.
Lárus er með B.Sc. í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og Dipl.Ing.Mach. í vélaverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Auk þess er hann með MBA frá Ohio University með áherslu á fjármálastjórnun og alþjóðaviðskipti. Lárus hefur víðtæka reynslu af störfum innan orkugeirans, bæði innanlands og utan, m.a. hjá fjölþjóðlega fyrirtækinu Atlas Copco, þar sem hann starfaði í sex ár sem framkvæmdastjóri.
Lárus er 64 ára og starfar sem verkefnastjóri á umhverfissviði hjá Mosfellsbæ.
Á fræðslu og frístundasviði voru ráðnir tveir nýir leiðtogar, Þrúður Hjelm í leikskólamálum og Páll Ásgeir Torfason í málefnum grunnskólans.
Þrúður er með B.Ed. í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og Diplómu í sérkennslufræðum frá sama skóla. Þá er hún með MLM í Forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og vottaða verkefnastjórnun (Certified Project Management Associate) frá EHÍ.
Þrúður hefur starfað sem skólastjóri, sérkennslustjóri og leikskólakennari undanfarna áratugi og hefur því víðtæka reynslu af störfum í grunn- og leikskólum. Frá 2008 hefur Þrúður verið skólastjóri í Krikaskóla, samþættum leik- og grunnskóla. Áður starfaði hún sem sérkennslustjóri í leikskólanum Huldubergi og að verkefni á vegum Mosfellsbæjar sem fólst í styrkingu á störfum sérkennslustjóra í öllum leikskólum bæjarfélagsins.
Þrúður er 58 ára og býr í Mosfellsbæ. Hún hefur nýlokið störfum sem skólastjóri Krikaskóla eftir 15 farsæl ár.
Páll Ásgeir er með B.Ed. og M.Ed. í kennslufræði frá Háskóla Íslands. Hann er með diplómu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla, APME í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og leiðtoganám (Oxford Executive Leadership programme) frá Oxford háskóla.
Páll Ásgeir hefur víðtæka reynslu af stafrænni þróun í skólastarfi sem deildarstjóri stafrænnar kennslu og miðlunar hjá Háskóla Íslands. Þar hefur hann borið ábyrgð á stafrænum kennslulausnum háskólans. Áður starfaði Páll sem verkefnastjóri í stafrænum verkefnum hjá Reykjavíkurborg þar sem hann vann að innleiðingu á Google Workspace for Education í grunnskólum borgarinnar. Þá starfaði Páll sem kennari og stigsstjóri unglingastigs í Fellaskóla.
Páll Ásgeir er 33 ára og býr í Reykjavík. Hann er í dag deildarstjóri stafrænnar miðlunar hjá Háskóla Íslands.
Alls sóttu 110 einstaklingar um störfin, flestir um starf skrifstofustjóra umbóta og þróunar og sviðsstjóra mannauðs og starfsumhverfis.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segist mjög þakklát með þann fjölda einstaklinga sem hafi sýnt störfunum áhuga. Þá óskar hún nýjum stjórnendum velfarnaðar í starfi og velkomna í öflugan hóp starfsfólks og stjórnenda hjá Mosfellsbæ.
,,Það er mikil breidd í þessum nýja hópi stjórnenda, bæði mikil fagleg reynsla en einnig þekking og reynsla af innleiðingu á stafrænum lausnum og af verkefnastjórnun sem er mjög mikilvægt gagnvart þeim tækni áskorunum sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir”.
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði