Vinir hallarinnar og umboðsskrifstofan Prime taka við rekstri félagsheimilisins Hlégarðs.
Eins og flestir vita hefur ekki verið rekstur í Hlégarði í nokkurn tíma. Mosfellsbær hefur nú, eftir að hafa sett sér markmið með rekstrinum og lagt ákveðnar áherslur í notkun þess og leitað eftir hugmyndum frá bæjarbúum, ákveðið að gera samning við nýja rekstraraðila.
Það eru Ísólfur Haraldsson framkvæmdastjóri hjá Vinum hallarinnar ehf og Páll Eyjólfsson framkvæmdastjóri og eigandi Umboðsskrifstofunnar Prime sem munu taka yfir rekstur hússins undir merkjum nýs félags, Hlégarður ehf.
Samningurinn felur í sér eftirfarandi markmið Mosfellsbæjar:
- Að efla lista- og menningarlíf í Mosfellsbæ
- Að Hlégarður verði félagsheimili og menningarhús bæjarbúa og að bæði ungum og öldnum gefist tækifæri til að sækja þá þjónustu sem þar verður í boði
- Að í Hlégarði verði boðið upp á fjölbreytta menningarviðburði með reglubundnum hætti
- Að í Hlégarði verði aðstaða og veitingaþjónusta fyrir fundi, móttökur, veislur og aðra mannfagnaði
- Að auðvelda ungum listamönnum að sinna list sinni og koma henni á framfæri
- Að gætt sé að ástandi húsnæðisins, innréttinga og innanstokksmuna og að virðing sé borin fyrir sögu Hlégarðs
Standa fyrir menningarviðburðum
Til að koma til móts við þessi markmið munu forsvarsmenn Hlégarðs ehf. skuldbinda sig til að standa fyrir að minnsta kosti tólf menningarviðburðum á ári í húsinu. Það verða menningarviðburðir af ýmsu tagi.
Með menningarviðburðum er, eins og segir í samningnum, átt við tónleikahald, uppistand, leikrit, listsýningar, skemmtanir fyrir eldri borgara, opin kvöld fyrir framhaldsskólanemendur og aðra sambærilega viðburði.
Húsið tekið í gegn að innan sem utan
Miklar viðgerðir hafa verið gerðar utanhúss á Hlégarði og er húsið nú hið glæsilegasta. Einnig hefur verið unnið að endurbótum innanhúss og mun verða haldið áfram við það á þessu ári. Þar með talið að endurnýja eldhúsið þar sem allar innréttingar og tæki eru komin til ára sinna. Í húsinu verður framvegis aðgengilegur tækjabúnaður sem gerir kleift að halda fyrrgreinda menningarviðburði með tilheyrandi ljósi, hljóði og myndatökum ef á þarf að halda.
Glæsilegt félagsheimili
„Mosfellsbær ber miklar væntingar til nýrra rekstraraðila og við erum þess fullviss að uppbygging menningarlífs í Hlégarði sé í góðum höndum. Ísólfur og Páll hafa mikla reynslu af skipulagningu ýmis konar viðburða. Við óskum þeim alls hins besta og hlökkum til að koma oftar í Hlégarð sem er auðvitað eitt af glæsilegri félagsheimilum á landinu,“ sagði Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Hersetin sveit í Hlégarði
Það var margt um manninn í félagsheimilinu Hlégarði fimmtudaginn 21. mars þegar tæplega 250 gestir mættu á Sögukvöld.
Grindvíkingum boðið á jólatónleika í Hlégarði
Tónlistarkonan Greta Salóme í samstarfi við Mosfellsbæ ætla að bjóða Grindvíkingum á jólatónleika í félagsheimili Mosfellinga, Hlégarði, sunnudaginn 17. desember kl. 17:00.
Fögnum fjölbreytileikanum - Regnbogagata máluð í Mosfellsbæ
Í dag, miðvikudaginn 9. ágúst, á 36 ára afmælisdegi Mosfellsbæjar, tóku bæjarstjóri og bæjarfulltrúar til hendinni og máluðu regnbogagötu fyrir framan félagsheimilið Hlégarð.