Það var margt um manninn í félagsheimilinu Hlégarði fimmtudaginn 21. mars þegar tæplega 250 gestir mættu á Sögukvöld.
Yfirskrift kvöldsins var Hersetin sveit og var umfjöllunarefnið hernámsárin og vera hermanna í Mosfellsveit. Sigurður Hreiðar Hreiðarsson og Leifur Reynisson sagnfræðingur fjölluðu um þessa miklu breytingatíma í íslensku samfélagi. Bjarki Bjarnason rithöfundur stýrði umræðum og sýndar voru ljósmyndir frá hernámsárunum sem varðveittar eru í Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar. Víða í sveitinni má sjá minjar um hersetuna, en tæplega 10.000 hermenn höfðu aðsetur í Mosfellssveit þegar mest var á árunum 1940-1944. Á sögukvöldinu var fjallað um tildrög hersetunnar, samskipti hermanna og íbúa sveitarinnar, aðbúnað og vistarverur hermannanna og ýmislegt fleira.
Tryggvi Blumenstein sýndi valda muni úr stríðsminjasafni sínu, en hann hefur um árabil safnað munum frá seinni heimstyrjöldinni tengdum Íslandi.
Félagar úr Leikfélagi Mosfellssveitar brugðu á leik: þvottakonur teygðu þvott af miklum móð og dátar stigu léttan dans við uppáklæddar dömur.
Sigurjón Alexanderson gítaleikari og Jokka G. Birnudóttir söngkona fluttu ljúfa tóna og boðið var upp á kaffi og veitingar í hléi.
Sögukvöldið var hluti Menningu í mars, sem er verkefni á vegum menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar sem hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og hjálpa þeim sem að því standa að kynna sig.
Tengt efni
Menningin blómstrar í Mosfellsbæ í mars
Menning í mars hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og styðja þau sem að því standa við að kynna sig.
Menning í mars
Grindvíkingum boðið á jólatónleika í Hlégarði
Tónlistarkonan Greta Salóme í samstarfi við Mosfellsbæ ætla að bjóða Grindvíkingum á jólatónleika í félagsheimili Mosfellinga, Hlégarði, sunnudaginn 17. desember kl. 17:00.