Í dag, miðvikudaginn 9. ágúst, á 36 ára afmælisdegi Mosfellsbæjar, tóku bæjarstjóri og bæjarfulltrúar til hendinni og máluðu regnbogagötu fyrir framan félagsheimilið Hlégarð.
Markmiðið er að fagna fjölbreytileikanum í tilefni Hinsegin daga 2023. Flokkstjórar í vinnuskólanum aðstoðuðu við verkið og máluðu meðal annars transfána við upphaf regnbogans.
Síðustu misseri hefur orðið vart bakslags í þeirri mannréttindabaráttu sem hinsegin samfélagið hefur leitt og á það sérstaklega við um málefni og hagsmuni trans fólks.
„Mannréttindabarátta hinsegin fólks er mikilvæg og Mosfellsbær styður heilshugar við þá baráttu. Við eigum að taka virkan þátt í að verja það sem hefur áunnist og sækja fram þar sem þess er þörf. Það er til marks um góð samfélög að mannréttindi allra séu virt. Ég fagna því að bæjarstjórn hafi samþykkt einróma metnaðarfulla fræðslu um hinsegin málefni fyrir starfsfólk í skólum og frístundastarfi. Mosfellsbær er stækkandi bæjarfélag sem verður sífellt margbreytilegra og hjá okkur er pláss fyrir öll.“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Mosfellsbær hvetur íbúa Mosfellsbæjar og alla aðra til að taka þátt í dagskrá Hinsegin daga 2023 og sýna þannig mannréttindabaráttu hinsegin samfélagsins mikilvægan stuðning.
Í dag er jafnframt afmælisdagur Mosfellsbæjar og því kjörið að fagna afmæli og fjölbreytileika saman.
Að lokinni vinnu við að mála fánana bauð Mosfellsbær bæjarfulltrúum, starfsfólki vinnuskólans og þjónustustöðvarinnar upp á kaffi og kleinur í Hlégarði.
Tengt efni
Er líða fer að jólum í Mosfellsbæ
Fjöldi viðburða verða í boði í Mosfellsbæ í aðdraganda jóla.
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos