Á hverju ári eru margháttaðar framkvæmdi á vegum Mosfellsbæjar auk þess sem unnið er að framkvæmdum í samvinnu við ríkið.
Nú stendur yfir undirbúningur vegna viðbyggingar við Leirvogstunguskóla sem mun hýsa eldhús skólans og er gert ráð fyrir því að framkvæmdirnar hefjist um næstu áramót.
Þá var 2. og 3. áfangi Helgafellsskóla tekinn í notkun í ágúst 2021 og hýsir skólinn nú starfsemi fyrir börn frá eins árs upp í 10. bekk. Í þessum áfanga var glæsilegur samkomusalur og sérgreinastofur teknar í notkun. Þá er undirbúningur hafi við hönnun og síðar byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla.
Loks er hönnun og bygging nýs leikskóla í Helgafellslandi nú í vinnslu en hönnun skólans var boðin út í ár og stendur hönnunin nú yfir. Nýi leikskólinn mun standa á lóð við Vefarastræti 2-6 og gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði boðin út vorið 2022.
Að auki hafa verið í gangi umfangsmiklar endurbætur á húsnæði Mosfellsbæjar s.s. í íþróttamiðstöðinni að Varmá þar sem fjórir búningsklefar hafa verið teknir í gegn og í Krikaskóla þar sem gluggar hafa verið endurnýjaðir og lagnir og dren kringum skólann ásamt endurnýjun gólfplötu og gólfefna.
Framkvæmdir í samvinnu við ríkið:
Vesturlandsvegur milli Skarhólabrautar og Langatanga var tvöfaldaður á síðasta ári og nú er í útboði tvöföldun næsta kafla milli Langatanga og Þverholts. Á þeim kafla er gert ráð fyrir breikkun vegarins með miðdeilir sem og að koma fyrir nýrri afrein að Sunnukrika. Gert er ráð fyrir að þeim framkvæmdum ljúki á næsta ári.
Samgöngustígur í gegnum Ævintýragarð frá Brúarlandi að Leirvogstunguhverfi er nú á lokametrunum, en gert ráð fyrir að verkinu ljúki næsta vor með yfirborðsfrágangi meðfram stígnum. Stígurinn er tvöfaldur þar sem hjólareinar í sitthvora áttina eru annars vegar en göngustígur hins vegar.
Þá er unnið að undirbúningi byggingar 44 nýrra hjúkrunarrýma við hjúkrunarheimilið Hamra og stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á árinu 2022.
Mynd: Halldóra Bragadóttir framkvæmdastjóri Kanon arkitekta sem fer með hönnun nýs leikskóla og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri skrifa undir.