Ný og glæsileg reiðhöll hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ var vígð á laugardag við mikla viðhöfn.
Reiðhöllin er sú stærsta áhöfuðborgarsvæðinu, 2400 fermetrar að stærð og er reiðvöllurinn sá stærsti á landinu. Reiðhöllin er byggð með stuðningi Mosfellsbæjar og landbúnaðarráðuneytisins en fjölmargir félagar í hestamannafélaginu hafa lagt sitt á vogarskálarnar svo ljúka mætti við verkið.
Guðjón Magnússon, formaður Hestamannafélagsins Harðar segir að reiðhöllin verði gífurleg lyftistöng fyrir starf hestamannafélagsins. „Hún mun gera alla aðstöðu til þjálfunar, ekki síst barna og fatlaðra, mun aðgengilegri,“ segir Guðjón. „Mikil uppbygging hefur verið í æskulýðsstarfi hjá félaginu sem hefur skilað sér í góðum árangri á mótum í sumar. Ný reiðhöll verður tvímælalaust til að efla ungmennastarfið enn frekar enda mun æskulýðsnefnd og fræðslunefnd félagsins hafa forgang að notkun hússins,“ segir Guðjón.
Við byggingu reiðhallarinnar var hugað sérstaklega að aðgengi fatlaðra. „Komið verður upp lyftu til að gera fötluðum kleift að komast á bak. Þá er höllin svo stór að hægt er að skipta reiðvellinum í tvennt þannig að fatlaðir hafi ávallt aðgang að hluta hallarinnar.“
Hestamannafélagið Hörður leggur mikla áherslu á þjálfun fatlaðra með hjálp hesta. Að sögn Guðjóns getur hestamennska gert fötluðum mikið gagn í endurhæfingu, jafnt þeim sem setið geta hestinn og meira fötluðum, svo sem mikið hreyfihömluðum. „Þeir sem ekki geta gengið fá mikið út úr því að setjast á bak og geta þannig farið um í náttúrunni,“ segir Guðjón. Hann segir að þá hafi einnig verið sýnt fram á jákvæðan árangur af því að leggja mikið hreyfihömluð börn á bak á hesti. Börnin eru lögð á teppi á bak á hestinum og hann síðan teymdur varlega og við það örvast vöðvar barnsins. „Ég vonast til þess að ný reiðhöll geti orðið til þess að þjálfun fatlaðra verði enn mikilvægari hluti starfsins en hingað til,“ segir Guðjón.
Reiðhöllin verður til frírra afnota fyrir félagsmenn utan þess tíma sem frátekinn er fyrir æskulýðsstarf og þjálfun fatlaðra.
Tengt efni
Syndum, landsátak í sundi hefst 1. nóvember 2024
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. – 30. nóvember 2024.
Vel sóttur fundur um Álafosskvos
Tveimur farsælum samráðsfundum lokið