Fimmtudaginn 18. apríl var tekin í notkun þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ.
Endurbætur á húsnæði við öryggisíbúðir að Eirhömrum hafa staðið yfir í vetur. Endurbæturnar fela í sér ýmis konar aðstöðu fyrir eldri borgara. Þar má nefna föndurrými, dagvistun, rými fyrir hárgreiðslustofu og fótsnyrtingu og svo endurbættir matsalir. Auk félagsstarfsins fer fram fjölbreytt starfsemi í húsinu, þar er miðstöð félagslegrar heimaþjónustu í Mosfellsbæ.
Þjónusta við eldri borgara er stórbætt með þessari nýju aðstöðu en einnig verður nýtt 30 rýma hjúkrunarheimili tekið í notkun í Mosfellsbæ innan fárra vikna.
Samstarf FaMos og félagsstarfsins Mosfellsbær og FaMos, Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni, ndirrituðu samstarfssamning af þessu tilefni. Samninginn undirrituðu Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Ragnheiður Stephensen formaður FaMos.
„Tímamótin sem við fögnum í dag eru langþráð. Aukin og bætt aðstaða fyrir þá starfsemi sem fer fram í þágu eldri borgara er tímabær fyrir margra hluta sakir en umtalsverð fjölgun hefur orðið í aldurshópnum 67 ára og eldri á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir að sú fjölgun muni margfaldast á næstu árum. Miklar væntingar eru bundnar við að samstarf FaMos og félagsstarfs eldri borgara stuðli að fjölbreyttu og blómlegu starfi í húsinu fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ,“ sagði Haraldur Sverrisson.