Það þarf engum að leiðast í Mosfellsbæ í sumar enda líf og fjör í bænum.
Það þarf engum að leiðast í Mosfellsbæ í sumar enda líf og fjör í bænum.
Á Stekkjarflöt er stórt svæði með leiktækjum og þar er einnig að finna Ærslabelg sem er opinn frá kl. 10:00 – 22:00. Að auki er strandblakvöllur staðsettur nálægt Íþróttamiðstöðinni að Varmá og sér blakdeild Aftureldingar um bókanir og umsjón með vellinum.
Þá hefur verið settur niður fastur heilsueflandi ratleikur fyrir alla fjölskylduna í Reykjalundarskógi.
Í Mosó er að finna tvær frábærar sundlaugar, Lágafellslaug og Varmárlaug, þar sem börn og fullorðnir á öllum aldri geta notið góða veðursins. Nálægðin við náttúruna gerir íbúum líka fært að njóta útivistar af ýmsu tagi auk þess sem hægt er að finna gönguleiðir við allra hæfi í nágrenni bæjarins.
Í Ævintýragarðinum eru margvísleg klifur- og þrautatæki sem og annar Ærslabelgur. Þar er líka níu holu frisbígolfvöllur. Völlurinn er fjölbreyttur og býður upp á mishæðir og gróður.
Ekki má gleyma öllum þeim áhugaverðu viðburðum sem standa yfir í Mosfellsbæ.
Listasalur Mosfellsbæjar
Sýning Söru Bjarkar Hauksdóttur, Vinn, vinn, stendur yfir til 31. júlí. Þetta er fyrsta einkasýning Söru á Íslandi en hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis sem og í Svíþjóð en þar hefur hún einnig sett upp tvær einkasýningar.
Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 12:00-18:00 á virkum dögum og kl. 12:00-16:00 á laugardögum.
Ilmbanki íslenskra jurta
Iilmupplifunarsýning um angan íslenskrar náttúru. Sýningin er byggð á rannsóknarvinnu Nordic angan sem fólgst í að fanga angan íslenskrar flóru með því að eima plöntur og tré til að ná úr þeim ilmkjarnaolíu. Komdu og upplifðu angan íslenskrar náttúru á skemmtilegan og óvenjulegan hátt með því að örva lyktarskynfærið!
Sýningin er opin á laugardögum og sunnudögum frá kl. 12:00-17:00. Aðgangseyrir er 1.200 kr.
Sýningin er staðsett við Álafossveg 27, bakhús, 270 Mosfellsbæ.
Útimarkaður Mosskóga
Á útimarkaði Mosskóga í Mosfellsdal er hægt að kaupa varning frá ræktendum og framleiðendum í nágrenninu. Þar má nefna lífrænt ræktað grænmeti og ber, heimagerðar sultur og mauk, nýbakað brauð, silung frá Heiðabæ og rósir frá Dalsgarði.
Útimarkaður Mosskóga í Mosfellsdal, Dalsgarði 1, 271 Mosfellsbæ.
Opið á laugardögum í júlí, ágúst og fram í september frá kl. 10:00-15:00.
Stofutónleikar á Gljúfrasteini
Stofutónleikar Gljúfrasteins eru haldnir hvern sunnudag í sumar, til 30. ágúst. Miðar eru seldir í safnbúð Gljúfrasteins samdægurs og kosta 2.500 kr.
- 19. júlí – Hipsumhaps
- 26. júlí – Björg Brjánsdóttir
- 2. ágúst – Sigrún
- 9. ágúst – Viibra flautuhópur
- 16. ágúst – Hallveig Rúnarsdóttir og Árni Heimir Ingólfsson
- 23. ágúst – Anna Gréta Sigurðardóttir
- 30. ágúst – GÓSS