Nemendur í 9. bekk í Lágafellsskóla hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins fyrir verkefni sem unnin voru sem hluti af umhverfisþema síðastliðið haust í tengslum við Dag umhverfisins.
Verkefnin voru margþætt; til að byrja með tóku nemendurnir fyrir ákveðin umhverfismál og kynntu fyrir samnemendum sínum í formi t.d. myndbanda, fréttaþátta, heimildarmynda eða rapplags. Í kjölfarið þurftu nemendur að taka sig á í tíu atriðum er varða umhverfið í sinni hversdagslegu hegðun á heimili sínu, allt frá því að nota færri handklæði í hverri viku og að eiga samskipti við vini og ættingja í eigin persónu, án milligöngu tölvu, síma eða annarra samskiptatækja – og til þess að gera ítarlega áætlun í samráði við foreldra sína um það hvernig heimilið allt geti bætt sig í sjálfbærum lífsstíl.
Loks boðuðu nemendur bæjarstjóra Mosfellsbæjar á sinn fund og afhentu honum áskorun með sjö tillögum um úrbætur í umhverfismálum bæjarins. Áskorun nemendanna var í kjölfarið tekin fyrir hjá umhverfisnefnd bæjarins og skiluðu hugmyndir þeirra sér þaðan í vinnu bæjarins við Staðardagskrá 21, sem lýtur að stefnumótun sveitarfélaga í sjálfbærnimálum.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að verkefnið hafi tekið á umhverfismálum í víðum skilningi. „Verkefnið hafði ekki eingöngu jákvæð áhrif innan skólans heldur einnig út fyrir skólann, í fyrsta lagi þar sem heimili nemenda voru virkjuð og í öðru lagi með beinum hætti í sjálfbærnivinnu bæjarfélagsins.“
Viðurkenningarnar voru afhentar á hátíðarathöfn í Nauthól, sem haldin var í tengslum við Dag umhverfisins sem er 25. apríl næstkomandi.
Mosfellsbær óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.