Miðvikudaginn 11. apríl stóð Mosfellsbær fyrir sérstakri móttöku fyrir flóttafólk frá Úganda og í kjölfarið var farið í heimsókn á bæjarskrifstofur Mosfellsbæjar.
Í upphafi móttökunnar bauð Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, fólkið velkomið til bæjarins og kynnti Mosfellsbæ og starfsemi á vegum sveitarfélagsins stuttlega fyrir þeim. Í kjölfarið mælti Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra nokkur orð og ræddi meðal annars um mikilvægi þess að fólk gæti lifað í friði frá ofsóknum.
Fólkinu vel tekið og finnst það velkomið
Eva Rós Ólafsdóttir verkefnastjóri móttöku flóttafólks sagði frá því hvernig hefur til tekist með móttöku flóttafólksins hingað til og hvaða verkefnum hefur verið unnið að í samvinnu við þau frá því að þau komu til Mosfellsbæjar þann 19. mars sl. Verkefnið er mikilvægt fyrir einstaklingana og að því kemur fjöldi aðila; Mosfellsbær, stofnanir bæjarins, stofnanir ríkisins auk aðkomu Rauða kross Íslands.
Loks tók James Keneth Katwere til máls fyrir hönd flóttafólksins og sagði frá því hversu vel þeim hefði verið tekið og hversu velkomin þeim fyndust þau vera.Töluverður áhugi var á móttökunni en sérstök áhersla var lögð á að þátttakendur myndu kynnast með því að taka tal saman á óformlegum grunni um leið og gengið var í gegnum skrifstofur bæjarins.
Unnið að farsælli aðlögun í nýju landi
„Við hjá Mosfellsbæ erum ánægð með það hversu vel hefur tekist við lausn þessa verkefnis hingað til og stolt af því að vera treyst fyrir því að vinna með þessum nýju íbúum Mosfellsbæjar að farsælli aðlögun í nýju landi. Lýðræði, jafnrétti og mannréttindi eru mikilvægir þættir í öllum samfélögum og við viljum tryggja þá þætti gagnvart öllum íbúum Mosfellsbæjar.
Það sem ég tek til mín frá þessari móttöku er það hversu jákvætt flóttafólkið er gagnvart lífinu hér og hversu vel starfsfólk Mosfellsbæjar hefur sinn sínum verkefnum. Þá er ég líka stoltur og ánægður með það hversu mikil samstaða var um að taka að okkur þetta verkefni í bæjarstjórn.“ sagðir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Mosfellsbær fjárfestir aukalega 100 milljónum í forvarnir
Styrkir til verkefna á sviði velferðarmála fyrir árið 2025
Lumar þú á leiguíbúð?
Mosfellsbær auglýsir eftir íbúðum fyrir flóttafólk til leigu.