Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti í morgun að heimila Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að undirrita samning við MCPB ehf um úthlutun lóðar undir 30 þúsund fermetra byggingu sem mun hýsa einkarekna heilbrigðisstofnun og hótel.
MCPB ehf er að mestu í eigu Burbanks Holding BV í Hollandi en forsvarsmenn félagsins hafa unnið að undirbúningi verkefnisins í nokkurn tíma. Uppbygging og rekstur verður í samstarfi við spænska hjartalækninn dr. Pedro Brugada. „Áhersla verður eingöngu lögð á þjónustu við erlenda sjúklinga, austan hafs og vestan. Starfseminni er því ekki ætlað að hafa nein áhrif á íslenska heilbrigðiskerfið.“ Segir Henri Middeldorp framkvæmdarstjóri Burbanks Holding BV. Hjartasérfræðingurinn Pedro Brugada hyggst hefja starfsemi hér á landi í haust.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri:
„Þetta er mikilvæg ákvörðun fyrir Mosfellsbæ ef af uppbyggingar áformum verður. Umfang verkefnisins er af þeirri stærðargráðu að það mun hafa veruleg áhrif á atvinnulíf og mannlíf í Mosfellsbæ. Viðræður við þessa aðila gengu fljótt og vel fyrir sig. Ein helsta ástæðan fyrir því er sú að Mosfellsbær hefur áður fengið sambærilegt verkefni til umfjöllunar. Það eru nokkur ár síðan en af þeim áætlunum varð ekki. Þess vegna er búið að vinna ákveðna grunnvinnu og meðal annars gera ráð fyrir slíkum byggingum á þessum stað í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Við erum tilbúin að hefja skipulagsvinnu með þessum aðilum en það er eina aðkoma sveitarfélagsins að verkefninu á þessum undirbúningstíma.“
Um er að ræða land við Sólvelli í Mosfellsbæ sem er staðsett við Hafravatnsveg. Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag sem leggur áherslu á heilsutengda ferðaþjónustu og hefur sjálfbærni og umhyggju fyrir náttúrunni að leiðarljósi. Uppbygging á einkarekinni sjúkrastofnun og hóteli fellur vel að þeirri stefnu.
Tengt efni
Lóðir í suðurhlíðum Helgafells - Umsóknarfrestur til 19. júní 2024
Lóðir í suðurhlíðum Helgafells
Mosfellsbær hefur opnað fyrir úthlutun lóða í Helgafellshverfi. Í boði eru 50 lóðir við Úugötu þar sem gert er ráð fyrir 30 einbýlishúsum, átta parhúsum (16 íbúðir) og einu fjögurra eininga raðhúsi.
Úthlutun lóða við Fossatungu og Langatanga lokið