Mosfellsbær hefur opnað fyrir úthlutun lóða í Helgafellshverfi. Í boði eru 50 lóðir við Úugötu þar sem gert er ráð fyrir 30 einbýlishúsum, átta parhúsum (16 íbúðir) og einu fjögurra eininga raðhúsi.
Úugata er í suðurhlíðum Helgafells og er eitt glæsilegasta byggingarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Lóðirnar sitja hátt í landinu og þaðan er mikið útsýni.
Í hverfinu er lögð áhersla á fjölbreytta byggð, vandaða umhverfismótun og góða tengingu við útivistarsvæði og ósnortna náttúru. Hverfið liggur vel við megin umferðarkerfi Mosfellsbæjar og er skammt frá miðbænum og allri þeirri þjónustu sem þar er í boði.
Fjallað var um Helgafellshverfið og úthlutun lóðanna á visir.is og þar sagði Regína Ásvaldsdóttir meðal annars:
„Það er óhætt að segja að Úugata, í suðurhlíðum Helgafells, sé eitt glæsilegasta byggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Við gerum ráð fyrir því að lóðirnar verði mjög eftirsóttar enda eru ekki margar suðurhlíðar eftir á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að þetta sé einstakt tækifæri. Við erum með nýjan og glæsilegan grunnskóla á svæðinu, Helgafellsskóla, sem einnig er með leikskóladeild og verður fullbyggður með um 700 nemendur. Auk þess erum við að byggja íþróttahús við skólann og nýjan 120 – 150 barna leikskóla sem tekur til starfa haustið 2025 og þar með verða leikskólarnir orðnir tveir í hverfinu.”
Umfjöllunin á visir.is:
Tilboð í lóðir skulu berast Mosfellsbæ fyrir miðnætti þann 19. júní 2024 og verða eingöngu móttekin með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt Mosfellsbæjar.
Tengt efni
Lóðir í suðurhlíðum Helgafells - Umsóknarfrestur til 19. júní 2024
Úthlutun lóða við Fossatungu og Langatanga lokið
Tilboð opnuð í byggingarrétt lóða við Langatanga og Fossatungu
Bæjarráð opnaði tilboð í byggingarrétt lóða við Langatanga og Fossatungu á 1606. fundi sínum í morgun 14. desember.