Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti í gær reglur íþrótta- og tómstundanefndar um frekari stuðning við það afreksíþróttafólk sem á lögheimili í Mosfellsbæ og hlotið hefur styrk úr afrekssjóði Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eða úr styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. Styrkurinn tekur ekki til flokkaíþrótta.
Samhliða tekur Mosfellsbær undir sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar sem er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu.
Stuðningur Mosfellsbæjar við Mosfellinga sem hljóta styrki ár hvert úr nefndum sjóðum ÍSÍ er sem hér segir:
- einstaklingar sem hljóta A styrk Afrekssjóðs ÍSÍ fá styrk að fjárhæð 480.000 kr.
- einstaklingar sem hljóta B styrk Afrekssjóðs ÍSÍ fá styrk að fjárhæð 240.000 kr.
- einstaklingar sem hljóta C styrk Afrekssjóðs ÍSÍ fá styrk að fjárhæð 120.000 kr.
- einstaklingar sem hljóta eingreiðslustyrk Afrekssjóðs ÍSÍ fá styrk að fjárhæð 80.000 kr.
- einstaklingar sem hljóta styrk úr Styrktarsjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna fá styrk að fjárhæð 50.000 kr.
Á þessu ári er einn Mosfellingur sem hlýtur styrk samkvæmt þessum reglum, en það er Emil Tumi Víglundsson sem hlaut styrk úr styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna fyrir hjólreiðar.
Emil Tumi Víglundsson.