1.gr. Markmið
Markmið Mosfellsbæjar er að styðja enn frekar við afreksíþróttafólk sem eiga lögheimili í Mosfellsbæ og hafa hlotið styrk úr afrekssjóði ÍSÍ. Styrkurinn tekur ekki til flokkaíþrótta.
Samhliða tekur Mosfellsbær undir sameiginlegt markmið íþróttahreyfingarinnar sem er að Íslendingar eigi hverju sinni afreksmenn í íþróttum er skipi sér á bekk með þeim bestu í heiminum og að stöðugt hækki afreksstig íslenskra íþrótta. Í því felst að efla hæfni og færni þeirra sem að afreksíþróttastarfinu koma og sem með afreksíþróttamanninum vinna, tryggja möguleika afreksíþróttamanna framtíðarinnar til að ná settu marki, stuðla að bættum framfærsluaðstæðum íþróttamannsins, og auka íslenska þjálfunarkunnáttu.
2.gr. Viðmið afreka
Viðmið afreka taka mið af ákvæðum reglugerðar afrekssjóðs ÍSÍ. Afreksíþróttafólki í einstaklingsgreinum er skipt niður í fjóra styrkleikaflokka til viðmiðunar:
Flokkur 1:
Framúrskarandi íþróttamaður, sá er skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum í sinni grein, s.s. með því að vinna til verðlauna á stærstu mótum heims og/eða komast í úrslit á stærstu viðburðum í sinni íþróttagrein.
Flokkur 2:
Afreksmaður á alþjóðlegan mælikvarða, sá sem skipar sér með árangri sínum í sinni grein ofarlega á heimslista viðkomandi íþróttagreinar og fær reglulega keppnisrétt á stærstu mót greinarinnar og/eða tekur reglulega þátt í sterkum alþjóðlegum mótum.
Flokkur 3:
Afreksmaður á íslenskan mælikvarða, sá sem er í fremstu röð í sinni grein á Íslandi, á sæti í afreks- og landsliðshópum viðkomandi íþróttagreinar og keppir reglulega fyrir Íslands hönd á erlendri grundu.
Flokkur 4:
Afreksefni, sá sem hefur ekki náð jafn langt en er talin að geti skipað sér á bekk með þeim bestu í heimi með markvissri og mikilli þjálfun. Slíkt efni skal vera í skipulagðri dagskrá á vegum sérsambands.
Almennt er miðað við að viðkomandi íþróttamenn hafi náð 15 ára aldri, en frávik frá þessum aldursmörkum eru heimil með hliðsjón af íþróttagreinum og í nánu samstarfi við sérsambönd/íþróttanefndir ÍSÍ.
Í öllum tilfellum er mikilvægt að viðkomandi einstaklingar séu í framför hvað varðar íþróttalegan árangur.
3 gr. Hverjir hljóta styrk og styrkfjárhæð
300.000 kr. styrk hlýtur sá afreksíþróttamaður sem Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands tilgreinir sérstaklega í úthlutun úr afrekssjóði ár hvert í tengslum við úthlutun til þeirra sérsambands.
80.000 kr. styrk hlýtur sá afreksíþróttamaður sem tekur þátt í verkefnum síns sérsambands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands tilgreinir sérstaklega í úthlutun úr afrekssjóði ár hvert. Til að hljóta styrkinn þarf staðfestingu sérsambands um slíkt.
Styrkurinn er greiddur í júní hvert ár. Afreksíþróttamaður þarf ekki að gera skilagrein vegna styrksins til Mosfellsbæjar.
Samþykkt á 672. fundi bæjarstjórnar, 25. maí, 2016.