- 20,5% íbúa á kjörskrá tóku þátt í íbúakosningunni
- Þátttakan er í senn Íslandsmet og væntanlega heimsmet
- Kjörsókn 2019 var 19,1% sem þá var jafnframt metþátttaka
Grillskýli rís við Stekkjarflöt, Minigolfvöllur verður settur upp í Ævintýragarðinum, Jólagarður á Hlégarðstúni og baðaðstaða verður byggð við Hafravatn samkvæmt niðurstöðum íbúakosningar um verkefni í Okkar Mosó 2021.
Íbúar völdu jafnframt körfuboltavelli við bæði Varmárskóla og Lágafellsskóla auk þess að velja merkingu hlaupa- og gönguleiða, fjallstoppa og fjallahjólastíga.
Alls hlutu níu hugmyndir brautargengi og verður 35 milljónum varið til verkefnanna en framkvæmd þeirra hefst í sumar og lýkur haustið 2022.
Íslandsmet í íbúakosningum
Enn eitt þátttökumet var slegið af íbúum Mosfellsbæjar en kosningarnar stóðu yfir frá 31. maí til 6. júní og kusu 2.080 íbúar sem er um 20,5% Mosfellinga 15 ára og eldri. Þrátt fyrir mikla íbúafjölgun síðustu fjögur ár hefur kosningaþátttakan aukist hlutfallslega í hvert skipti en verkefninu var fyrst hleypt af stokkunum 2017. Um er að ræða mestu þátttöku í sambærilegum kosningum á Íslandi og samkvæmt þjónustuaðila kosningakerfisins er líklega um heimsmet að ræða í kosningum sem þessum.
„Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka íbúum í Mosfellsbæ fyrir hreint frábæra þátttöku og góðan stuðning við þetta mikilvæga lýðræðisverkefni sem Okkar Mosó er. Þátttaka íbúa leiðir að mínu mati mjög vel fram hvað við Mosfellingar búum yfir miklum félagsauði í okkar samfélagi og staðfestir að það er mjög gott að búa í Mosó. Við höfum skoðun á og tökum þátt í samfélagslegum verkefnum og látum okkur umhverfið og hvert annað varða. Við sem störfum fyrir Mosfellinga fundum það líka í þeim aðstæðum sem ríkt hafa í samfélaginu frá fyrstu bylgju Covid að við stöndum saman í erfiðum aðstæðum. Allt þetta ber að þakka.“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Nafn | Atkvæði | Kostnaður | Lýsing |
---|---|---|---|
Merktar hlaupa- og gönguleiðir | 1.045 | 1.0 | Merktar hlaupa- og gönguleiðir frá Lágafellslaug. Merkingar á leiðum og kort útbúið. |
Grillskáli við Stekkjaflöt | 876 | 2.0 | Grillskáli úr timbri við Stekkjarflöt. |
Minigolfvöllur | 835 | 10.0 | 9 holu minigolfvöllur í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum, opinn almenningi. |
Jólagarður í Mosfellsbæ | 799 | 4.0 | Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að heimsækja staðinn og eiga góðar stundir. |
Baðaðstaða við Hafravatn | 767 | 6.0 | Baðaðstaða við norðurenda Hafravatns. Bílastæði, einföld búningsaðstaða, sturtuaðstaða og pallur í flæðarmálinu. |
Körfuboltavöllur við Varmárskóla | 755 | 4.5 | Fullbúinn körfuboltavöllur með mottuundirlagi og körfum við Varmárskóla í stað núverandi vallar. |
Fjallahjólastígar | 741 | 1.0 | Stikaðar fjallahjólaleiðir í Mosfelli og Úlfarsfelli. Leiðirnar verða merktar og útbúið kort af leiðum. |
Körfuboltavöllur við Lágafellsskóla | 686 | 4.5 | Fullbúinn körfuboltavöllur með mottuundirlagi og körfum við Lágafellsskóla. |
Klára að merkja bæjarfellin | 559 | 2.0 | Fjögur fell: Bæjarfell, Lali, Lyklafell og Þverfell, merkt til viðbótar með heiti, hæð y.s.m. og gps punktum. |
Samtals | 7.063 | 35.0 |
Tengt efni
Vinna við nýja körfuboltavelli á áætlun
Uppákomur í jólagarðinum næstu sunnudaga
Jólagarðurinn við Hlégarð hefur slegið í gegn á aðventunni. Verkefnið var kosið í Okkar Mosó 2021.
Ljósin í jólagarðinum við Hlégarð tendruð
„Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að heimsækja staðinn og eiga góðar stundir“.