Alls bárust rúmlega 400 tillögur frá frá krökkum á mið- og unglingastigi í skólum Mosfellsbæjar vegna hugmyndasöfnunar í tengslum við lýðræðisverkefnið Krakka Mosó 2025. Hugmyndasöfnunin stóð yfir dagana 28. og 29. apríl.
Krakka Mosó 2025 er lýðræðis- og samráðsverkefni krakka og Mosó um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til framkvæmda eða verkefna á þrem opnum svæðum í bænum. Svæðin eru Ævintýragarðurinn, Stekkjarflöt og svæði við Rituhöfða.
Nú tekur við vinna starfsfólks Mosfellsbæjar við að flokka og meta hugmyndirnar og sameina þær sem eru sambærilegar eða eins. Að þeirri vinnu lokinni verður að ný kallað eftir aðkomu krakkanna við að útfæra þær hugmyndir sem þau kjósa á milli að lokum.
Ekki verður annað séð en að krakkar í Mosó séu stútfull af skemmtilegum hugmyndum sem beinast því að gera Mosó betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja- og skemmtunar.
Að lokinnu úrvinnslu hugmynda verður farið í kynningu meðal nemenda á þeim tillögum sem lagt verður til að fari til atkvæðagreiðslu.
Kjördagur verður 20. maí 2025 og fer kosningin fram í grunnskólum bæjarins, þar sem nemendur fá tækifæri til að greiða atkvæði um þær hugmyndir sem til greina kemur að framkvæmda.
Á kjördag verður íslenski fáninn dreginn að húni við skólana og krakkarnir greiða atkvæði í leynilegri kosningu, fulltrúar þeirra taka þátt í talningu atkvæða og kynningu niðurstaðna í lok kjördags. Þá verða niðurstöður einnig birtar á vef og samfélagsmiðlum Mosfellsbæjar að kosningu lokinni.
„Mér fannst gaman að vera með í þessu, að setja eitthvað nýtt og laga fyrir krakkana í Mosó. Það hefðu samt þurft að vera fleiri staðir og það mátti líka hafa meiri pening,“ segir Lára, í 5. bekk í Varmárskóla. Hún bætir því við að bærinn mætti gera meira af því að spyrja krakka álits á hlutum sem skipta máli, til dæmis um símabann í skólum.