Íslandsmótið í skák hefst í Íþróttamiðstöðinni í Lágafelli í Mosfellsbæ í dag.
Klukkan 17 hefst landsliðsflokkur þar sem þátt taka flestir af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar. Má þar nefna tífaldan Íslandsmeistara í skák, Hannes Hlífar Stefánsson, sem nýlega sigraði á MP Reykjavíkurskákmótinu. Meðal annarra keppenda má nefna stórmeistarann Þröst Þórhallsson og alþjóðlegu meistarana Stefán Kristjánsson, bræðurna Braga og Björn Þorfinnssyni og Dag Arngrímsson. Einnig fá tveir af okkur yngstu og efnilegustu skákmönnum tækifæri á að tefla í landsliðsflokki í fyrsta skipti en það eru hinir 18 ára Sverrir Þorgeirsson og Daði Ómarsson.
Mótið er hluti af undirbúningi okkar bestu skákmanna fyrir ólympíuskákmótið í Síberíu í haust en Íslandsmeistari fær sjálfkrafa sæti í ólympíuliðinu auk þess að fá farseðil á EM einstaklinga sem haldið verður í Frakklandi næsta vor.
Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ, Haraldur Sverrisson, setur mótið og leikur fyrsta leik þess.
Klukkan 18 hefst svo áskorendaflokkur á sama stað en þar tefla um 40 skákmenn. Meðal keppenda þar má nefna margar af bestu skákkonum landsins og einnig marga af efnilegustu skákmönnum landsins en tvö efstu sætin í áskorendaflokki veita rétt á því að tefla í landsliðsflokki að ári. Þar verður ekki síður hart barist í landsliðsflokki!
Aðstæður á skákstað verða til fyrirmyndar bæði fyrir keppendur og ekki síður fyrir áhorfendur en skákirnar verða sýndar beint í skáksal sem og í hliðarsal þar sem hægt verður að ræða stöðurnar í ró og næði. Einnig verður á staðnum skákbókasala og skáksettasala. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslandsmótið fer fram í Mosfellsbæ.
Dagana 6. – 9. apríl verður skákvika í bænum í umsjón Skákskóla Íslands. Þá verður kennd skák í stað íþrótta hjá öllum bekkjum beggja skóla bæjarins.
Mosfellsbær mun semsagt iða af skáklífi næstu 11 daga!
Tengt efni
Samstarfssamningar Mosfellsbæjar við íþrótta- og tómstundafélög endurnýjaðir
Samningarnir gilda frá árinu 2025 til loka ársins 2027.
Sjálfboðaliði ársins 2024
Íslandsmót í Cyclocross í Mosfellsbæ