Mosfellsbær og Landvernd skrifuðu nýverið undir nýjan samning vegna verkefnisins Vistvernd í verki.
Mosfellsbær er með fyrstu sveitarfélögum á landinu til að endurnýja samning sinn við Landvernd vegna verkefnisins og er þannig í fararbroddi í sjálfbæri þróun.
Vistvernd í verki gengur út á það að gefa íbúum kost á að taka þátt í visthópum sem stuðla að vistvænni lífsstíl. Visthóparnir fara í gegnum helstu þætti umhverfismála heimilanna á sérstökum fundum og taka þar fyrir valda efnisflokka, svo sem sorp, orku, samgöngur, innkaup og vatn. Sérstakur leiðbeinandi fylgir hverjum visthópi í gegnum verkefnið og aðstoðar þátttakendur við að taka upp umhverfisvænni lifnaðarhætti.
Nú þegar eru visthópar í gangi í Mosfellsbæ og ennþá er pláss fyrir fleiri þátttakendur. Þeir sem vilja taka þátt í verkefninu geta sett sig í samband við Landvernd í síma 552-5242 eða skráð sig á vef Landverndar.