Síðastliðinn föstudag hlaut Mosfellsbær ásamt góðum hópi fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga viðurkenningu verkefnisins Jafnvægisvogin, sem er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Verkefnið er samstarfsverkefni FKA, Creditinfo, Deloitte, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Pipar\TBWA, RÚV, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Árlega eru veittar viðurkenningar til þeirra aðila sem náð hafa markmiði verkefnisins um jafnt hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja og stofnana þ.e. að hlutfallsleg skipting karla og kvenna í stjórnum sé aldrei ójafnari en 40/60.
Dagskrá og viðurkenningarathöfn fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands að viðstöddu fjölmenni. Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar opnaði hátíðina og hrósaði stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum. Þá flutti Katrín Jakobsdóttir hvetjandi erindi þar sem hún fór yfir stöðuna í jafnréttismálum í samfélaginu almennt og mikilvægi viðurkenningarinnar.
Inntak Jafnvægisvogarinnar er einfalt og skilaboðin mjög skýr um að jafnrétti sé ákvörðun sem þarf að taka með formlegum hætti ef breytingar eiga raunverulega að verða að veruleika. Fjöldi viðurkenninga í ár sem var um 130 talsins gefur von um að jafnrétti þokist í rétta átt í æðstu stjórnum fyrirtækja og stofnana atvinnulífsins á Íslandi.
Ljósmynd: Silla Páls
Tengt efni
Aukin vetraropnun kaffistofu Samhjálpar
Neyðarkallinn til styrktar björgunarsveitinni Kyndli
Mosfellsbær styrkir Björgunarsveitina Kyndil með því að kaupa Neyðarkallinn 2024.
Bókun samtala hjá velferðarsviði