Benedikt Ólafsson 19 ára Mosfellingur var valinn úr stórum hópi Landsliðs Íslands í hestaíþróttum til að taka þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi í sumar.
Benedikt sem hafði þá verið hluti af landsliðinu síðastliðin fimm ár, unnið Landsmót hestamann tvisvar og Íslandsmeistartitil í tölti á Biskupi frá Ólafshaga gerði sér lítið fyrir og tryggði sér tvo heimsmeistaratitla í Hollandi.
Heimsmeistaratitilinn í gæðingaskeiði tryggði hann sér á merinni Leiru-Björk frá Naustum lll, en gæðingaskeið er þeirra aðalgrein og hafa þau verið ríkjandi Íslandsmeistarar í nokkur ár. Þá tók hann einnig þátt í fleiri greinum til þess að reyna við Heimsmeistaratitil í samanlögðum fimmgangsgreinum sem tókst glimrandi vel og landaði þannig öðrum heimsmeistaratitli.
Merina Leiru-Björk keypti Benedikt fyrir fermingarpeningana sína og voru það erfið skref að hans sögn að þurfa að teyma hana upp á flutningabíl sem flutti hana á frábært heimili í Sviss. En eins og margir vita eiga íslenskir hestar sem taka þátt í mótum erlendis ekki afturkvæmt til landsins eftir að hafa verið fluttir út til keppni.
Benedikt hefur með þessum Heimsmeistaratitlum sínum öðlast þáttökurétt á næsta Heimsmeistaramóti sem fram fer í Sviss eftir tvö ár og hefur leitin að nýju hrossi hafist.
Mosfellsbær óskar þessum unga og efnilega hestamanni innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.