Vetur konungur hefur heldur betur látið að sér kveða í desember.
Í byrjun mánaðarins kyngdi niður snjó í miklu magni á stuttum tíma. Þegar slíkar aðstæður skapast mæðir mikið á snjómoksturstækjum og þeim mannskap sem þeim stýra en Þjónustustöð Mosfellsbæjar ber ábyrgð á snjómokstri í bænum.
„Unnið er bæði á eigin vélum bæjarins og eins eru ráðnir verktakar til starfsins þegar á þarf að halda. Skipulega er gengið til verks og liggur fyrir snjómokstursáætlun sem forgangsraðar verkefnum. Þar er í fyrsta forgangi að ryðja stofngötur, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur. Áhersla á að ryðja stígakerfi bæjarins hefur aukist síðustu ár. Stígakerfi til og frá skólum og þau sem tengja saman hverfi eru í fyrsta forgangi“ sagði Þorsteinn Sigvaldason sem stýrir Þjónustustöðinni í samtali við bæjarblaðið Mosfelling nýverið.
GPS sendar í moksturstækin
Þorsteinn sagði einnig frá nýjung í starfseminni sem snýr að því að nýverið voru settir GPS sendar í moksturstækin. Þannig er hægt að fylgjast betur með þeim svæðum sem búið er að ryðja. Markmiðið með þessu er að gera vinnuna við snjómokstur og önnur verkefni skilvirkari og þjónustuna betri.
„Þessi tækni mun jafnvel geta falið í sér að íbúar gætu farið inn á netið og séð hvar vélarnar eru í rauntíma. Það bætir upplýsingaflæði og gerir þjónustuna gegnsæa,“ segir Þorsteinn bjartsýnn áður en hann þurfti að snúa sér aftur að þeim mörgu verkefnum sem fylgja vetrinum og jólunum hjá Þjónustustöðinni.
Hálkuvarnir
Hálka er nú mjög víða og eru bæjarbúar hvattir til að fara varlega. Hjá Þjónustustöð bæjarins við Völuteig 15 geta íbúar fengið sand til að bera á plön og stéttir við heimahús. Aðgengi er opið að sandinum og er bæjarbúum velkomið að taka það sem til þarf (muna að taka með sér poka eða ílát). Hægt er að senda ábendingar um það sem betur má fara á mos[hjá]mos.is eða hringja í þjónustumiðstöð 566-8450.