Menning í mars hefur það að markmiði að efla menningarstarf í bænum, gera það sýnilegra og styðja þau sem að því standa við að kynna sig.
Marsmánuður hófst heldur betur á menningarlegum nótum á opnu húsi Listaskóla Mosfellsbæjar þann 1. mars þegar allar deildir skólans kynntu sitt blómlega starf.
Meðal annara menningarviðburða í Mosfellsbæ í mars er Hlégarðsbíó, sem verður endurvakið í félagsheimilinu 9. mars þegar klassíska kvikmyndin Stella í orlofi verður sýnd. Myndin fjallar um Stellu sem fer í sumarbústað með sænskum alka sem var á leiðinni í meðferð hjá SÁÁ. Þau lenda í alls kyns vandræðum á ferðum sínum. Leikstjóri og framleiðandi myndarinnar er Mosfellingurinn Guðný Halldórsdóttir, Duna í Melkoti. Frítt inn og gamanið hefst kl. 20:00.
Leikfélag Mosfellssveitar sýnir söngleikinn Galdrakarlinn í Oz sem byggður er á samnefndri bók eftir L. Frank Baum og segir frá hinni ungu Dóróteu og hundinum hennar Tótó sem, eftir að hafa lent í hvirfilbyl á heimili sínu í Kansas, lendir í hinu töfrandi landi Oz. Þar þarf hún ásamt fuglahræðunni, tinkarlinum og huglausa ljóninu að fylgja gula veginum til þess að hitta hinn mikla galdrakarl og fá aðstoð hans til að komast heim. Ferðin er þó ekki hættulaus og þurfa þau meðal annars að varast hina vondu vestannorn. Leikstjóri er Aron Martin Ásgerðarson og danshöfundur Svanhildur Sverrisdóttir. Sýnt verður á sunnudögum í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Miðasala á tix.is.
13. mars mætir Stormsveitin í Hlégarð í glaðlegum gír með söng, sögur og almenn huggulegheit. Lagavalið eru uppáhalds lög kórmanna þar sem útsetningar fá að njóta sín í botn við undirleik Þóris Úlfarssonar og Arnórs Sigurðarsonar. Efniskráin samanstendur af dægurlögum og þjóðlegum lögum frá síðustu 50 árum sem sungin eru í flottum kórútsetningum þar sem röddun fær að njóta sín. Einnig stíga kórmenn fram og segja sögur af sér og öðrum á léttum nótum.
Boðið verður upp á módelteikningu í Listasal Mosfellsbæjar 13. mars milli kl. 19 og 21. Þátttakendur koma með áhöld og efni til að teikna/mála á. Borð og stólar á staðnum og engrar fyrri reynslu af teikningu þörf, bara koma með áhöld og áhuga! Ekki verður boðið upp á kennslu í teikningu, heldur er þetta frjáls tími til að teikna. Skráningagjald er 2.000 kr og fer í gegnum sumar.vala.is.
Í Mosfellsbæ hefur alltaf verið lífleg jeppamenning og laugardaginn 15. mars hittist jeppafólk í Varmadal í skemmunni. Hugmyndin er hittast og grafa upp söguna, sýna myndir og jeppa frá ýmsum tímum.
Í Listasal Mosfellsbæjar stendur sýning Telmu Har, Vá! Kona!? yfir til 15. mars. Sýningin samanstendur af ljósmyndum og er viðfangsefnið vangaveltum um konur og birtingarmynd þeirra í þjóðsögum.
20. mars heimsækir Dagný Hermannsdóttir textílkennari Bókasafn Mosfellsbæjar og segir frá vettlingahefðum Letta. Einnig kemur hún með allnokkur vettlingapör sem hægt er að skoða og handfjatla. Í Lettlandi sköpuðust einstakar hefðir í vettlingaprjóni. Konur lögðu gríðarlegan metnað í að hanna og prjóna einstaka vettlinga, munstrin voru fjölbreytt og mismunandi hefðir sköpuðust milli héraða. Í Lettlandi hafa varðveist ótrúlega fjölbreytt og mörg vettlingamunstur og enn í dag.
Þann 22. mars opnar samsýning Elísabetar Stefánsdóttur, Fríðu Gauksdóttur og bæjarlistamannsins Þóru Sigurþórsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar. Sama dag býður kvennakórinn Stöllur upp á sannkallaða menningarveislu kvenna í Bókasafni Mosfellsbæjar. Árið 2025 er ár konunnar og ætla Stöllur að fagna því á sérstaklega með því að halda þennan viðburð sem er tileinkaður konum. Kvennakórinn Stöllur státar af listrænum meðlimum og munu þær allar leggja fram krafta sína á fjölbreyttan hátt. Viðburðurinn mun innihalda söng, myndlist, blómaskreytingar, smásagna og ljóðalestur, þar sem allar konurnar munu nýta sína sérhæfingu og sköpunarkraft til að veita áheyrendum ógleymanlega upplifun. Meðal þeirra sem koma fram á viðburðinum eru Hafdís Huld Þrastardóttir, Textíl Barinn, Ásbjörg Jónsdóttir og fleiri.
Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, Örn Árnason og Jónas Þórir píanóleikari hafa öll unnið saman í langan tíma og nú leiða þau saman hesta sína í Hlégarði sunnudagskvöldið 23. mars í stórskemmtilegri dagskrá sem heitir Léttir sprettir en þar skreppa þau með gesti sína í skemmtiferð í tali og tónum. Miðasala fer fram á tix.is og við inngang.
Sögukvöld í Hlégarði hafa heldur betur slegið í gegn og húsfyllir í bæði skiptin sem þau hafa verið haldin. Að þessu sinni verður Sögukvöldið haldið fimmtudaginn 27. mars. Yfirskrift kvöldsins er Álafossull er á við gull og fjallað verður um ullarverksmiðjuna á Álafossi í máli og myndum. Húsið opnar kl. 19:00 og dagskrá hefst kl. 19:30.
Fleiri viðburðir undir hatti Menningar í mars verða kynntir á viðburðadagatali Mosfellsbæjar og á samfélagsmiðlum bæjarins. Þau sem hafa áhuga á að bjóða upp á menningarviðburð í mars eru hvött að skrá viðburðinn á mos.is/menningimars.
Mosfellingar eru hvattir bæði til að bjóða upp á menningarviðburði í mars og einnig til að mæta vel á viðburðina og njóta þeirrar menningar sem blómstrar í bænum.